Bloggfærslur mánaðarins, október 2006
6. september 2006
Fari svo að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur nái ekki meirihluta á þingi í komandi kosningum, á þá ekki að vera augljóst að þeir sem nú eru í minnihluta geri allt sem hægt er til að mynda ríkisstjórn? Má vera að forystufólk stjórnarandstöðuflokkanna telji erfitt að ráða þannig í úrslitin, verði þau með þeim hætti?Eftir tólf ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á að vera augljós krafa til stjórnarandstöðunnar að hún sverji að mynda ríkisstjórn eftir kosningar hafi hún stöðu til þess. Það er ekki spennandi til þess að hugsa að einhverjir stjórnarandstæðingar þori ekki að taka af skarið og segja það blákalt að það verði forgangsverkefni eftir kosningar að mynda nýja ríkisstjórn fái þeir afl til þess, og að þeir segi jafnframt að breytingar eða endurlífgun á núverandi stjórn verði þrautalending sem einungis verði reynd takist ekki að ná saman um stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.Margt þakkar núverandi ríkisstjórn sér og eins benda helstu talsmenn hennar á margt sem miður hefur farið. Síðast gekk Davíð Oddsson lengra en aðrir hafa gert. Hann segir rangt haldið á varnarmálum, hann hefur áhyggjur af ríkum Íslendingum og af gagnslitlu dómskerfi. Efnahagsmálin hafa komið á hans borð með öðrum hætti en áður var. Af þeim hefur hann áhyggjur. Allt það sem hann hefur sagt, og einhverjir fleiri stjórnarsinnar, eru kjörin vopn fyrir stjórnarandstöðuna og ef hana skortir ekki kjarkinn á hún að hefja baráttuna strax. Það er fínt fyrir kjósendur að hafa klára valkosti. Núverandi ríkisstjórn verði áfram eða að við taki ríkisstjórn þeirra flokka sem nú eru valdalausir; sem hafa setið á áhorfendabekkjunum og sem hafa einstaka sinnum náð að hafa nógu hátt til að eftir þeim væri tekið og gagn hafi orðið af. Þar má nefna björgun fjölmiðlafrumvarpsfárs Davíðs Oddssonar.Fari svo að stjórnarflokkarnir haldi meirihluta er líklegast að þeir starfi saman að loknum kosningum. Undantekningarlítið eða jafnvel undantekningarlaust mæra allir stjórnarsinnar samstarf flokkanna. Þess vegna er ekki hægt að sjá hvers vegna það haldi ekki áfram eftir kosningar verði flokkarnir með meirihluta á þingi. Útlit er fyrir að Framsóknarflokkurinn verði aumur eftir kosningar, en það hefur ekki truflað Sjálfstæðisflokkinn til þessa eins og sjá má á núverandi samstarfi þeirra í ríkisstjórn og byggðastjórnum hér og þar um landið.Með sama hætti er ábyrgð lögð á stjórnarandstöðuna ef ríkisstjórnin fellur. Ábyrgðin er falin í því að þá ætla kjósendur núverandi stjórnarandstöðu að taka við landsstjórninni. Þá er uppi klár afstaða kjósenda og það er kominn tími til að stjórnmálamenn virði vilja kjósenda og taki hann fram yfir eigin hag. Sjaldan eða aldrei hafa verið eins fínir möguleikar á skýrum valkostum í kosningum sem nú. Eina sem vantar er hreinskilni og kjarkur forystufólksins. Það verður að tala skýrt, bæði þau sem nú eru ríkisstjórn og eins þau sem eru utan stjórnar. Kjósendur eru eflaust reiðubúnir að gera upp hug sinn; núverandi ríkisstjórn eða ríkisstjórn núverandi stjórnarandstöðu. Svör óskast frá flokkunum.5. september 2006
Kastljósþáttur sunnudagsins hlýtur að skipa sér í sérstöðu. Davíð Oddsson var gestur þáttarins og virtist yfirvegaður og friðsæll. Þrátt fyrir það skilur hann eftir svo margar spurningar að varla verður tölu á komið.Orð Davíðs um stöðu dómsvaldsins voru ótrúleg. Hann sagði dómstólana vera svo slaka að þeir ráði aðeins við gæsluvarðhaldsúrskurði og sjoppurán. Annað ekki. Ótrúleg orð manns sem hefur haft eins mikil völd og raun ber vitni. Í stjórnartíð Davíðs dró sífellt úr valdi Alþingis, það varð afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið, þannig að lengur er varla hægt að tala um þrískiptingu valdsins. Löggjafarvaldið hefur aldrei verið aumara, og samkvæmt fullyrðingum Davíðs er dómsvaldið gjörsamlega vanhæft til allra stærri mála.Kannski er ekki ástæða til að gera svo mikið úr því sem Davíð segir. Allavega hirtu flestir ekkert um það þegar hann sagði Hrein Loftsson hafa ætlað að bera á sig fé. Þeir höfðu setið saman við drykkju og Hreinn segir Davíð hafa hótað innrás í Baug, og til að jafna leikinn bar Davíð á Hrein að hafa komið með mútuboð í umboði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Fáir trúðu Davíð. Í Kastljósþættinum upplýsti hann að hann hafi stundað það sem hann kallaði smjörklípuaðferðina. Þegar á hann var sótt átti hann til að kasta fram einhverju allt öðru og þannig rembdust andstæðingarnir við að verjast fullyrðingunum en gleymdu sókninni sem þeir voru í. Líklegt verður að telja að mútumálið hafi aldrei verið mál, bara smjörklípa. Án þess að þjóðin þekkti nokkuð til smjörklípuaðferðar Davíðs, tók hún samt aldrei mark á mútumáli Davíðs, fannst þetta vera eins og óþægilega klípa, smjörklípa.Það er svo sem hægt að brosa af þessu. En það var annað sem Davíð sagði sem er ekki broslegt. Er frekar óþægilegt. Hann sagði Bandaríkjaforseta, vin sinn, hafa breytt ákvörðun ríkisstjórnar til að þóknast Davíð Oddssyni, vini sínum. Má það vera að þannig gerist hjá ráðamönnum? Að þeir láti stjórnast af vinskap við hina og þessa? Vissulega varð vinátta Davíðs og Bush til þess að herþoturnar voru lengur á Íslandi, en til hvers? Hvað vannst með því? Frestur? Fyrst Bush er svona góður vinur Davíðs, er þá vináttan ekki gagnkvæm? Má vera að það sé skýringin á því hvers vegna Davíð blandaði hinni friðsælu íslensku þjóð í hernaðaráðtök? Allavega nefndi Hannes Hólmsteinn Gissurarson eina af bókum sínum: Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Má það vera að Davíð hafi verið að endurgjalda Bush greiðann, eða var það öfugt? Það er sama hvort er, jafn ógeðfellt er hugarfarið.Davíð á fleiri vini en Bush. Kári Stefánsson kom í tvígang fram í þættinum sem sérlegur vinur Davíðs. Sami Kári og allt ætlaði vitlaust að gera vegna ríkisábyrgðar sem Davíð vildi að hann fengi, en Kári afþakkaði vegna andstöðunnar í samfélaginu og sami Kári og hafði það í gegn með aðstoð Davíðs að Alþingi samþykkti lög um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Sem aldrei varð úr og var kannski aldrei annað en umbúðir. En vináttan hélt, kannski er það aðalatriðið.1. september 2006
Mikil tíðindi eru í útgáfu Blaðsins í dag. Upplag þess hefur verið aukið og er því nú dreift í rétt um eitthundrað þúsund eintökum. Framvegis mun Blaðið berast lesendum að morgni og því er treyst að lesendum muni fjölga verulega. Breytingar eru gerðar á útliti Blaðsins og efnistök verða skýrari. Þar með er lokið við að gera þær breytingar sem var talað um þegar breytingar urðu á ritstjórn Blaðsins fyrir tæpum tveimur mánuðum. Þrátt fyrir tímamót mun Blaðið eigi að síður halda áfram að breytast og þroskast.Blaðið hefur nokkra sérstöðu frá hinum dagblöðunum tveimur. Blaðið mun ekki ætla sér að keppa beint við hin dagblöðin tvö, heldur verða skýr valkostur. Sérstaða þess er nokkur. Blaðið verður áfram alþýðlegt, veitir upplýsingar og gætir að hag neytenda. Blaðið verður hófsamt og ákveðið, sanngjarnt og kjarkað og leitast verður við að í hverju tölublaði verði viðbót við allt það efni sem aðrir fjölmiðlar birta.Í nútímasamfélagi er það þannig að velflestir hafa aðgang að ljósvakafréttum að degi til og á kvöldin og aðgangur Íslendinga að tölvum er meiri en almennt gerist. Þess vegna er aðgangur flestra að almennum fréttum nokkur og stundum mikill. Blaðinu er ekki ætlað að endursegja fréttir sem aðrir fjölmiðlar hafa birt. Það hefur þegar skapað sér sérstöðu og áfram verður haldið á þeirri braut.Mikil og sterk viðbrögð hafa verið við þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar og er það von okkar sem störfum við Blaðið að þær breytingar sem nú líta dagsins ljós mælist einnig vel fyrir. Það er þörf fyrir fjölmiðil sem eykur litróf frétta, sem nálgast fréttir með öðrum hætti en allir hinir, sem er í senn alþýðlegur og skemmtilegur fjölmiðill.En fjölmiðill er ekki bara fréttir. Áfram verður lögð alúð við annarskonar efni. Í dag fylgir Orðlaus Blaðinu og verður svo áfram á hverjum föstudegi. Fastir efnisflokkar verða alla daga, svo sem menning, íþróttir og fleira. Ekki verður dregið úr vægi þessara þátta þrátt fyrir að fréttahlutinn hafi verið aukinn. Með annarri uppröðun efnis og fastari efnistökum mun fjölbreytni aukast og meira verður lagt í vinnslu alls efnis. Takmarkið er augljóst. Blaðið á að hafa sérstöðu, Blaðið á að vera skemmtilegt, fræðandi og ábyrgt.Það er fleira sem breytist en aukið upplag, morgundreifing, útlit og efnistök. Í fyrstu verður mánudagsútgáfu Blaðsins hætt. Þar sem sömu blaðberar dreifa Blaðinu og Morgunblaðinu er ekki unnt að bæta á þeirra vinnu á mánudögum, en þá kemur fasteignablað Morgunblaðsins út og því er vinna blaðbera mikil á mánudögum.Það er von okkar sem störfum við útgáfu Blaðsins að breytingar á dreifingu og efnistökum sem og útlitinu verði til þess að styrkja enn frekar ágætt samband Blaðsins og lesenda.31. ágúst 2006
Aðgerðaleysi er duglegu fólki hættulegt. Eins ef það finnur sér ekki verkefni þó nóg sé að gera. Þannig virðist komið fyrir Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Hann lætur einsog hann hafi ekkert þarft að gera og talar fyrir her og leyniþjónustu.Ekki er það svo að af því sem heyrir undir Björn sé allt með þeim ágætum að ráðherrann hafi tíma til dekurverkefna. Flokkur Björns hefur fært honum völd sem eru vandmeðfarin. Meðal þess sem honum er ætlað er ábyrgð á lögreglu og fangelsum. Þar virðist margt í kalda koli. Olíusvikamálið hreyfist á hraða snigilsins, annað hvort vantar getu eða áhuga til að koma málinu á þann hraða sem þarf. Ekki vantar peninga til rannsókna, það hefur sannast í öðrum málum. Sama er að segja um nánast allt sem snýr að fangelsum, þar er vægast sagt allt í kalda koli. Þau er of fá, of þröng, of gömul og fangarnir hafa aðgang að fíkniefnum einsog hvern listir. Í stað þess að taka á því sem brýnast er virðist ráðherrann sitja og móta í huga sér framtíðarmyndir af leyniþjónustum og herjum.Eflaust hefur ráðherrann þungar áhyggjur af Baugsmálinu. Hið opinbera hefur sennilega eytt meira af peningum í það mál en nokkurt annað meint sakamál. Hið opinbera hefur reynt aftur og aftur og engar sakir fengið viðurkenndar, allavega ekki enn. Í stað eirðarleysis og aðgerðaleysis getur Björn látið til sín taka þar sem þörf er á að hann leggi málum lið.Fangelsismálastjóri hefur fengið nóg og hótar að hætta störfum sökum þess hversu illa er staðið að málum. Hann segist hreinlega ekki geta verið ábyrgur fyrir því sleifarlagi sem er á öllu í þeim málaflokki, hefur fengið nóg. Þarna eru ærin verkefni fyrir Björn.Það þarf að styrkja rannsóknina á olíusvikamálinu. Þó ekki væri nema vegna sakborninganna. Þeir eru menn og þeir eiga líka rétt. Það er ekki hægt að gera nokkrum manni það að ganga ár eftir ár meðal fólks og vera sífellt dæmdur af samfélaginu. Til að dæma þá sem breyta rangt eru dómstólar og til að þeir geti dæmt þarf að rannsaka mál, ákæra og dæma. Sakborningar eiga rétt á því að reglur samfélagsins séu virtar og að dómar verði felldir yfir þeim sem hafa brotið af sér. Svo eiga þeir sem eru ítrekað sýknaðir af ákærum hins opinbera líka rétt. Kannski felst sá réttur í því að ráðherrann axli ábyrgð og sjái til þess að þeir valdsmenn sem undir hann heyra virði fólk og fari vel með vald sitt. Allt eru þetta brýn verkefni sem dómsmálaráðherra þarf að taka á og koma áfram. Það er nóg að gera fyrir dómsmálaráðherra og kannski fer best á því að hugmyndir um leyniþjónustu og her bíði þar til ekkert annað er á borði ráðherra.29. ágúst 2006
Jónas Kristjánsson, sem er einn mikilhæfasti fjölmiðlamaður landsins, kallar það rokufréttir þegar mikið er sagt í einni frétt og ekkert framhald verður á málinu. Kenning Jónasar leitar oft á hugann þegar þingmenn gapa og garga fullir vandlætingar vegna einhvers. Nú keppast stjórnarandstæðingar við að mála Valgerði Sverrisdóttur hinum verstu litum. Hún á það svo sem alveg skilið, en öll stóru orðin og allt það mikla sem sagt er vegna Valgerðar og hennar málflutnings er dæmi um rokukenningu Jónasar. Sem fyrr munu þingmennirnir stórmæltu ekki gera neitt annað en hafa stór orð um Valgerði.Kannski geta þeir fátt gert. Þingið er hvort eð fyrir löngu hætt að virka. Á Íslandi er búið að afnema þingræðið og framkvæmdavaldið hefur náð öllum völdum. Eða hvenær henti það síðast að ráðherrar hafi ekki komið málum í gegn, að þingið hafi með sinni vinnu, sinni afstöðu fellt mál frá ráðherrum? Það bara gerist ekki. Þó þingmenn tali um vinnuna sína sem hina mestu alvöru og að þeir séu störfum hlaðnir og beri mikla ábyrgð þá getum við hin ekki séð að svo sé. Meira að segja einn af reyndustu þingmönnunum og reyndur ráðherra hefur sagt að sérfræðiálit eigi ekki erindi til þingmanna, það sé ekki þeirra að skilja orð sérfræðinga. Kristinn H. Gunnarsson er eina þekkta undantekningin, og ekki í fyrsta sinn, en það er annað mál, enda ekki sjálfgefið að hann teljist til stjórnarsinna.Þess vegna er alveg sama í hversu vonda stöðu Valgerður hefur komið sér, hver stjórnarsinninn á eftir öðrum mun gera allt til að verja hana og réttlæta gerðir hennar og orð. Þannig er það og þannig verður það. Vel má vera að einstaka stjórnarandstæðingur á þingi fari mikinn þessa dagana, en það býr ekkert að baki, ekkert. Þó fullyrt sé að ráðherrar í öðrum löndum hefðu sagt af sér, þó sagt sé að Valgerður hafi sýnt fádæma hroka og lítilsvirðingu, er það allt. Engin eftirmál verða og stórlega má efast um að alvara sé að baki öllum fullyrðingunum og öllum stóru orðunum. Það má vel vera að engu breyti hver málstaðurinn er, bara að eftir honum verði tekið. Í veigamestu málum hefur Alþingi ekkert að segja. Frumvörp eru samin í öðrum húsum af öðru fólki. Þau eru kynnt þingmönnum sem fjalla um þau og ná kannski fram einstaka breytingum í einstaka málum. Vilji ráðherranna verður alltaf ofan á. Líka þegar verður að verja þá vegna vitleysunnar sem þeir segja eða gera. Liðsheildin heldur.Upplýsingarnar sem var haldið frá Alþingi hefðu svo sem engu breytt. Það er rétt hjá Valgerði. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson voru búnir að semja sín á milli um Kárahnjúkavirkjun. Það dugði í þá daga. Þeir tóku ákvarðanir og fengu stimpla frá Alþingi. Þannig var það. Allar heimsins upplýsingar hefðu engu breytt.Alþingismenn reka upp rokur svo þeir gleymist ekki. En hvað þeir segja gleymist jafnharðan.28. ágúst 2006
Valgerður Sverrisdóttir getur ekki annað en hugleitt stöðu sína alvarlega. Það er eitt að hún sé sökuð um að hafa leynt Alþingi mikilvægum gögnum, gögnum sem höfðu mikið að segja þegar meirihluti Alþingis ákvað að ráðist yrði í gerð Kárahnjúkavirkjunar. Hitt er ekki síður alvarlegt að Valgerður sér ekkert að því sem hún gerði, segir þingmenn bara ekkert hafa haft með gögnin að gera, gögn sem fólu í sér varnaðarorð um ágæti stíflugerðarinnar.Það eru gríðarleg ósköp af upplýsingum og sérfræðiálitum sem eru til um þetta mikla mannvirki og þau gögn geta ekki öll komið fyrir Alþingi. Niðurstaðan er sú að það þarf ekki að hafa áhyggjur af þessum atriðum í skýrslu Gríms Björnssonar nema einu atriði og það er atriði sem Alþingi fjallar ekki um, segir Valgerður í Blaðinu í dag. Þingmenn eru sumir hverjir ósáttir við hversu lítið álit Valgerður hefur á þingheimi.Þetta er svo alvarlegt hjá Valgerði að ferill hennar hlýtur að taka breytingum hér með, er jafnvel á enda. Það eru tvennskonar yfirsjónir í sama máli, feluleikurinn með gögnin og svo hitt að tala einsog hún gerir. Ráðherra má aldrei vera svo sjálfumglaður að hann ráði því hvaða gögn Alþingi fær og meti hvað þingheimur fær skilið og hvað þinginu getur gagnast við ákvarðanatöku. Það er svo hrikaleg aðför að þingræðinu að ekki er við það unandi. Þetta var ekki gert í neinu smámáli, Kárahnjúkavirkjun er risavaxið verk og fara verður með málið samkvæmt því.Valgerður var í vondum málum 2002 þegar ákvörðunin var tekin. Framsóknarflokkurinn stóð verulega höllum fæti, ekki síst í kjördæmi Valgerðar. Flokksmaskínan kunni engin ráð önnur en að ganga frá samningum um virkjun og iðjuver. Það var gert í flýti og með þeim ósköpum sem nú eru að koma fram. Flokkurinn átti enga innistæðu, bjó sér í haginn meðal annars með því að fela gagnrýni á stóru fyrirætlanirnar. Nú er komið að öðrum kosningum og að skuldadögum. Hvað nú, Valgerður? Og hvað nú, Framsókn?Stutt er til kosninga og ekki fer Framsókn vel af stað. Formaðurinn hrökklaðist frá, flokksmenn kusu helsta ráðgjafann í hans stað, Valgerður er í nauðvörn og þannig hefur mætti flokksins hefur verið ráðstafað. Valgerður Sverrisdóttir er ekki ein Íslendinga þeirrar skoðunar að Alþingi sé ekki alltaf treystandi. Fullyrðingar á þá leið heyrast víða og oft. En að ráðherrar haldi að hægt sé að skammta þinginu upplýsingar þegar það stendur frammi fyrir eins mikilli ákvörðun og það gerði þegar fallist var á gerð Kárahnjúkavirkjunar er algjörlega galið. Ráðherrann má ekki komast upp um slíkt. Sennilega eru þetta endalokin hjá Valgerði. Kannski hrekst hún heim rétt einsog þeir hinir ráðherrarnir sem frekastir voru.25. ágúst 2006
Prófkjör stjórnmálaflokkanna eru framundan. Þar munu samherjar herja hver á annan og margir bíða ósigra. Það er svo sem allt í lagi. Hitt er annað, að baráttan fyrir þingsætunum mun kosta mikla peninga, peninga sem frambjóðendurnir eiga ekki sjálfir, heldur snapa upp hér og þar. Og í sjálfu sér getur það verið í lagi, en þó ekki, þar sem stjórnmálamenn hafa slegið skjaldborg um sjálfa sig og peningana.Ólíkt stjórnmálamönnum í alvöru ríkjum þurfa þeir íslensku ekki að segja hverjir gefa þeim peninga, hvorki einstaka stjórnmálamenn né stjórnmálaflokkar. Þetta er sérstaða sem íslenskir stjórnmálamenn hafa búið til fyrir sjálfa sig og sem aðrir komast ekki upp með.Vegna þessa háttalags munu kjósendur aldrei fá að vita hvaða fyrirtæki og hvaða einstaklingar munu kosta framadrauma væntanlegra þingmanna og þess vegna verður ómögulegt að benda á ef þau sem ná kjöri munu í störfum sínum launa greiðann. Líklegast er kerfið einsog það er, einmitt vegna þess að ekki þykir heppilegt að fjölmiðlar eða aðrir geti leitað samsvörunar milli gefendanna og þess hvaða afstöðu þingmenn taka í málum sem snerta gefendurna og hagsmuni þeirra. Með því að fela tekjur flokka og gjafir og styrki til flokka og stjórnmálamanna er verið að strá efasemdum, efasemdum sem samtakamáttur stjórnmálamanna ver með krafti. Svo langt er gengið í hagsmunavörslunni að því er haldið fram af krafti að það styrki lýðræðið að mega þegja yfir því hverjir borga styrkina og gefa gjafirnar. Í öðrum löndum dettur fólki bara ekki í hug að bera aðra eins þvælu á borð. Kjósendur eiga ekki að láta þetta viðgangast, heldur krefjast þess að vitað verði hvaðan peningarnir sem kosta stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka koma. Meðan svo er ekki verða kjósendur að efast um starf stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka; meðan svo er verða kjósendur líka að gera ráð fyrir því að ástæðan fyrir því að þeir gefi ekki upp hver borgar kostnaðinn sé sú að það henti engan veginn að gefa það upp; það gæti ekki skaðað lýðræðið en það gæti skaðað gefendur og þiggjendur.Á næstu vikum munu samherjar takast á um hin eftirsóttu þingsæti. Miklu verður til fórnað, bæði af peningum og krafti. Við munum heyra ótal afsakanir og skýringar á fjáraustrinum og allir þeir stjórnmálamenn sem eiga eftir að tjá sig um eigin baráttu munu fullyrða fullum fetum að gjafirnar muni ekki hafa hin minnstu áhrif, engu breyta í huga stjórnmálamanna. Samt mun ekki koma til greina að skýra frá hverjir gefa.Margir þeir sem sækjast eftir endurkjöri á kostnað huldumanna hafa talað fyrir lagasetningu á annað fólk, til dæmis á fjölmiðla. Þá þarf að eignarhaldið að vera gegnsætt og tryggja frelsi fjölmiðlafólks, en á sama tíma þiggja stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar peninga undir borðið, peninga sem hvergi kemur fram hver gefur og hver þiggur.23. ágúst 2006
Það getur ekki verið hátt risið á saksóknaranum í Baugsmálinu eftir að hann varð að játa sig sigraðan með helsta kafla eigin ákæru, kafla sem dómstólar hafa ítrekað vísað á bug, en það tók saksóknarann alltof langan tíma að viðurkenna stöðu sína og gefast upp. Þegar hann gerði það loks varð hann samt að leggjast svo lágt að strá efasemdum um Jón Ásgeir Jóhannesson og hvort hann sé raunverulega sekur eða saklaus af þeirri ákæru sem saksóknarinn er nú neyddur til að viðurkenna að hefur ekkert með refsilög að gera.Hið opinbera hefur rannsakað nóg í Baugsmálinu og hefur gert meira en gott þykir. Eftir alla þá fyrirhöfn og alla þá peninga sem varið hefur verið til málsins er það býsna snautlegt sem eftir stendur og verði saksóknaranum að góðu að berjast með leifarnar af Baugsmálinu í dómsölunum. Verst er að hann getur ekki útkljáð málið einn síns liðs, hann þarf sakborninga og það er verst fyrir þá að þurfa að taka lengur þátt í þessum ótrúlega farsa sem Baugsmálið er.Hvort Baugsmenn hafi tekið lán, flutt inn bíla eða sláttuvélar og svo framvegis er smámál miðað við þörfina á að rannsakað verði hvernig Baugsmálið varð eins stórt og raun ber vitni um og ekki síður hver aðdragandi málsins var og hvers vegna það fékk forgang á flest annað. Frá upphafi hafa fleiri en Baugsmenn fundið að málsmeðferðinni. Dómstólar hafa ítrekað smánað vinnu saksóknaranna beggja og það hlýtur að vera rannsóknarefni hversu lengi málinu var framhaldið, ekki síður en hvers vegna það upphófst.Það er alkunna að upphaf kærunnar á hendur Baugsmönnum er hjá fólki sem síðar hefur ekki komið formlega við sögu málsins. Annað er ómögulegt en að þeir sem hafa verið bornir sökum af hálfu hins opinbera geri allt sem þeir geta til að kanna hvað varð til þess að veik kæra eins manns leiddi til alls þess sem á eftir fylgdi. Það er þörf á að Baugsmálið verði þeim sem fara með hið mikla vald saksóknara minnisvarði um að valdinu fylgir alvara og því verður að beita af varúð og skynsemi.Rannsakendur hafa alla tíð brugðist illa við þegar þeir hafa verið sakaðir um að taka við tilskipunum um framgang Baugsmálsins, en margir hafa sakað lögregluna um að vera undirlægju í málinu. Það er þess vegna óskandi að lögreglan vilji sanna sakleysi sitt og taki þátt í að skýra hvers vegna málið varð að þeim óskapnaði sem raun hefur orðið á.Tilgátur um pólitísk afskipti af Baugsmálinu hafa alltaf verið uppi. Þær verða það þar til annað sannast, þannig er það. Ekki má gleymast að þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, svaraði á þann veg, þegar hann var spurður um hvort pólitík hafi haft áhrif á Baugsmálið, að ef svo væri myndu dómstólar einfaldlega vísa málinu frá. Það hafa þeir gert, ekkert er eftir nema bragðlausar leifar, sem eru nánast níð um þá sem hafa talað fyrir sök í málinu, fórnað ómældum peningum og krafti í mál sem nánast ekkert er og fjöldi manns hefur varað við þeim málalokum sem nú eru orðin að veruleika.23. ágúst 2006
Eftir að hafa varið einum degi með Ómari Ragnarssyni við Kárahnjúka eru nokkrar spurningar uppi. Til dæmis, hvað rekur mann einsog Ómar til að leggja allt það sem hann gerir? Í hvaða tilgangi gerir hann þetta? Og má vera að margt af því sem hann nefnir sé með þeim hætti sem hann segir? Hver er ávinningurinn af virkjuninni? Og er það kannski svo að verið sé að fórna minni hagsmunum fyrir meiri?Ómar Ragnarsson er einstakur maður, það vita allir Íslendingar. En að sjá hann með eigin augum í þessu sérsaka hlutverki er ekki síður merkilegt en það sem hann sýnir. Áhöld eru uppi um hvort er merkilegra, landið sem verður sökkt eða Ómar.Það er merkilegt að ganga um væntanlegan botn á uppistöðulóninu. Vissulega fer þar fallegt land undir vatn, land sem alltof fáir hafa séð, snert eða fundið ilminn af. Einstaklingurinn verður lítill og máttvana í hugsunum sínum þegar hugsaði er til þess sem framundan er. Barátta þeirra sem hafa barist gegn Kárahnjúkavirkjun er merkileg og hún mun sigra, ekki þó á Kárahnjúkum. Andstaðan verður eflaust til þess að hægar verður farið í nánustu framtíð. Það getur bara ekki verið sjálfsagður réttur núlifandi kynslóða að endurtaka hina tröllsegu framkvæmd við Kárahnjúka. Svar þjóðarinnar verður einfalt nei.Aftur að Ómari. Ekki er nokkur í vafa um ást hans á landinu. Ást hans á landinu hefur fangað hann svo mikið að hann fórnar flestu fyrir hugsjónina. Það er einstök upplifun að sjá og vita að hann heldur meira og minna til á hálendinu, sefur þar í gömlum bílskrjóðum og er boðinn og búinn til að kynna fyrir okkur afleiðingar Kárahnjúkavirkjunnar.Ómar er ekki einn um að benda á stórtækar afleiðingar virkjunarinnar. Hann gerir það með kröftugri hætti en flestum öðrum er unnt að gera. Hitt er annað að stjórnmálamenn hafa ráðið ferðinni, þeir ákváðu Kárahnjúkavirkjun, en um leið og þetta er sagt er nokkuð víst að þeim mun ekki veitast eins létt að ráðast í annað eins. Barátta Ómars Ragnarssonar og fleiri sér til þess. Virkjunarsinnar keppast við andstæðinga við að kynna málstað sinn. Eftir að Landsvirkjun bauð ritstjórum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins og Seðlabankastjóra í sérstaka ferð að Kárahnjúkum sendi Ómar opið bréf og bauð nokkrum völdum einstaklingum í kynnisferð. Síðan hefur Landsvirkjun sent boð til þeirra sem ekki fóru í fyrri ferðina, en eru á gestalista Ómars. Landsvirkjun býður ekki allt, þeir sem þiggja verða að borga tuttugu þúsund krónur vegna kosntaðar við flug. Þess vegna þótti þeim sem þetta skrifar ekki annað við hæfi en borga Ómari það sama og Landsvirkjun verður greitt. Vonandi að aðrir geri það líka. Kynnisferðin er að frumkvæði Ómars,en má ekki vera alfarið á hans ábyrgð og á hans kostnað. Það er ekki sanngjarnt.Bloggar | 20.10.2006 | 10:08 (breytt kl. 10:09) | Slóð | Facebook
21. ágúst 2006
Getur verið að flokksþing Framsóknar hafa verið þing um ekkert? Ekkert hafi breyst annað en að Halldór lét af formennsku og við henni tók vildarvinur hans og ráðgjafi í áratugi? Má vera að flokksþingið hafi ekki fært flokkinn eitt fet frá því feni sem hann er í? Má vera að kjarkleysi til breytinga hafi náð völdum af flokksfélögum og að þeir komi frá þinginu í sömu stöðu og þeir komu til þess?Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, var valinn til embættis af Halldóri. Það dylst engum og að flokksþingið lét það yfir sig ganga. Guðni Ágústsson er áfram varaformaður, svo það er engin breyting þar og það er ekki hægt að gera Framsóknarflokknum það til hæfis að tala um stöðu ritara sem alvörupólítiska stöðu. Það skiptir þjóðina bara engu hver gegnir embætti ritara í Framsóknarflokknum. Í forystu Framsóknarflokksins eru tveir karlar, vel á sextugsaldri. Það er sérstaða þeirra meðal stjórnmálaflokka í dag, reyndar lætur nærri að eins sé komið fyrir Frjálslynda flokknum. Aðrir flokkar hafa breidd í sinni forystu.Framsókn er í afleitri stöðu og það veit þjóðin og það vita Framsóknarmenn. Staða þeirra er afleit meðal annars vegna einkavæðingar banka, vegna undirlægjuháttar við Bandaríkjamenn vegna Íraksstríðsins, vegna undirlægjuháttar við Davíð Oddsson vegna fjölmiðlamálsins, vegna stórðiðjustefnu, vegna hryðjuverka gegn náttúrunni og vegna græðgi formannsins fyrrverandi til að verða forsætisráðherra og síðast en ekki síst, vegna hversu illa þeim hefur tekist að flytja mál sitt, verja gjörðir sínar og benda á það sem þeim hefur þó tekist vel með.Kannski átti flokksþingið erfitt val, annar frambjóðandinn til formanns kom úr ráðgjafahirð fyrrverandi formanns, þeirri hirð sem ber mikla ábyrgð á því að æ fleiri kjósa að snúa baki við flokknum og þeirri stefnu sem flokkurinn hefur fylgt. Hinn frambjóðandinn var til dæmis umhverfisráðherra þegar hryðjuverkin gegn náttúrunni voru hvað mest og ber þess vegna mikla ábyrgð. Það þarf kjark til að hafna konu á besta aldri og það þarf kjark til að velja einn af ráðgjöfunum, mann sem er elstur allra til að taka við formennsku í Framsóknarflokknum, aldrei áður hefur flokkurinn valið sér eldri formannn. Það er kjarkleysi að hafa ekki þorað að tala um einkavæðingu, að hafa ekki þorað að tala um Íraksstríðið, að hafa ekki þorað að tala um fjölmiðlaofbeldið, um stóriðjuna og aðförina að náttúrunni. Það eina sem frambjóðendurnir töluðu um og boðuðu breytingar á var að Evrópumálin væru ekki á dagskrá á næstunni. Það er fullyrðing Davíðs Oddssonar og nú Framsóknarflokksins. Þjóðin mun setja Evrópumálin á dagskrá og vel má vera að Framsóknarflokkurinn fylgi þjóðinni ekki, en forræði í Evrópumálunum verður ekki flokkanna, þeir hafa ekki kjarkinn, en þjóðin hefur hann og þjóðin ræðir Evrópumál.