Bloggfærslur mánaðarins, október 2006
18. ágúst 2006
Enn og aftur hækkar Davíð Oddsson stýrivexti og enn aftur andmæla talsmenn atvinnurekenda og talsmenn launafólks. Þeir segjast hafa náð fínasta árangri og allt stefndi til betra tíma og öryggis í efnahagsmálum. Mat þeirra og Davíðs er greinilega gjörólíkt. Það er ekki fyrir hvern sem er að skilja hvað er í gangi.Fyrir ekki svo löngu var gert samkomulag. Launin voru hækkuð og ríkisvaldið lagðist á sveif með launafólki og atvinnurekendum. Þeir segjast hafa náð fínasta árangri og allt benti til að verðbólgumarkmið næðust eftir ekki svo langan tíma. Davíð skammaði bankana, þeir tóku það til sín og hlýddu honum, svo mikið að hann var sáttur. Samt gerist þetta aftur, Davíð hækkar vextina og viðbrögðin eru þau sömu og frá þeim sömu. Við hin stöndum hjá og spyrjum, hverjum ber að trúa?Eigum við að trúa þeim sem semja um kaup og kjör eða eigum við að trúa Davíð? Margir höfðu misst traust á Davíð meðan hann var enn í pólitíkinni. Hann virðist sem nýr maður í Seðlabankanum, en þegar gerðir hans þar eru gagnrýndar eins harkalega og nú er gert, er ekki annað hægt en að efast aðeins. Eða er ábyrgðin ríkisstjórnarinnar, hefur hann enga aðra valkosti en að bæta enn við heimsmetið í vaxtaálagi? Þurfa endilega að vera sömu markmið með vexti og matarverð og svo margt annað, allt hæst á Íslandi. Framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins segir: Við höfum ekki séð ástæðu til að gagnrýna Seðlabankann til þessa þar sem hann hefur þurft að sitja einn uppi með ábyrgð á sinnuleysi stjórnvalda varðandi hagstjórn. Það hefur náðst sýnilegur árangur í hagkerfinu og ég undrast svona öfgakennda peningamálastefnu. Það var og.Það setur að okkur óhug þegar okkur er sagt að aðgerðir Davíðs kalli fram harkalega lendingu í efnahagsmálum, að allt hafi stefni í mjúka lendingu en nú sé það fyrir bí. Við sjáum þetta sem flugvél sem er að koma inn til lendingar eftir erfitt ferðalag og skömmu áður en brautin er snert, kippi einhver í stjórnklefanum hjólunum upp svo vélin lendir magalendingu og allt fer á versta veg. Til hvers? Ekki er mögulegt að skilja gangrýni Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins á annan veg en þann að Davíð sé að auka vandann en ekki koma í veg fyrir vanda eða draga úr honum. Atvinnuleysi er meira en það hefur verið, verðbólga er mikil og fleira hefur gengið úr skorðum. Þegar víðsjárverðir tímar eru uppi er gott að hafa trú á þeim sem ábyrgðina bera. En enn og aftur gerist það sama. Það er talað í allar áttir, út og suður og jafnvel norður og niður. Má vera að ríkisvaldið hafi lokið sinni þátttöku í stjórn efnahagsmála, eða þarf að gera meira en fresta vegabótum á Vestfjörðum og seinka byggingu Tónlistarhúss og sjúkrahúss, sem sennilega verður hvort eð er blásið af eftir kosningar þegar áhrif pólitískraskyndiákvarðanna Davíðs Seðlabankastjóra fjara út?Krafa okkar borgaranna er að fjármálaráðherra og forsætisráðherra rói okkur sem þurfum að þola óvissuna sem kemur með misvísandi skilaboðum talsmanna atvinnulífsins og launafólks og Seðlabankans. Við viljum vita hver staðan er, hvaða horfur eru og hvernig við munum hafa það á næstu árum. Davíð virðist vera einn á móti öllum, en hvernig er það, ræður hann öllu enn þá?17. ágúst 2006
Blaðið hefur sagt fréttir af yfirfullum fangelsum. Þar hefur komið fram að fangelsin eru ekki bara yfirfull, sum standast ekki kröfur og við þau hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir. Svo bág er staðan að fangelsismálastjóri, sem virðist vera hinn vænsti embættismaður, hefur sagt að hann vilji ekki bera ábyrgð á því hvernig komið er og hyggist láta af embætti.Ábyrgðin er ekki bara fangelsismálastjóra. Í áraraðir hefur verið beðið eftir nýju fangelsi. Það hefur hins vegar verið sett til hliðar af nokkrum dómsmálaráðherrum. Þeir virðast eiga það sameiginlegt að hafa sett lausnir á bráðum vanda í bið, kannski þar sem fangar eru ekki í uppáhaldi hjá okkur hinum og mæta ekki sama skilningi og aðrir. Það er samt skylda samfélagsins að búa að öllum með sæmilegum hætti, líka þeim sem hafa brotið gegn okkur hinum. Öllum samfélögum fylgir margbreytileiki, jafnt jákvæður sem neikvæður. Það er hrein og klár skylda okkar að búa betur að refsiföngum en við gerum nú. Dómsmálaráðherra verður að láta til sín taka og þoka brýnu máli áfram. Sú staðreynd ein, að ekki er pláss í fangelsum fyrir fleiri, dugar til að viðurkenna neyðarástand. Við bætist að þau okkar sem brjóta af sér verða að bíða mánuðum saman frá því að dómur er kveðinn þar til unnt er að hefja afplánun. Það er ósanngjarnt og eykur jafnvel á refsinguna, langt umfram það sem dómarar hafa ákveðið.Svo margir eru vistaðir í gæsluvarðhaldi að ekki er unnt að koma fleiri föngum að. Það er afleitt og ekki síður sú staðreynd að við beitum gæsluvarðhaldi af meiri hörku en flestar nálægar þjóðir. Það er ekki bara að við höfum þröng og yfirfull fangelsi, sem jafnvel eru ekki samboðin einum né neinum, heldur höfum við farið þá leið að beita einangrun af meiri fantaskap en aðrar þjóðir.Það er ekki til sóma að bæta ekki úr og það er ekki hægt að ár eftir ár sé jafn sjálfsagt mál og nýtt fangelsi látið mæta afgangi. Auk þess hefur verið bent á að það kostar mikið að hafa gæsluvarðhaldsfangelsi á Litla-Hrauni, fjarri lögreglu, fjarri dómsölum og fjarri lögmönnum. Ferðir fram og til baka kosta peninga og tíma. Rök um peninga eru oftast einföldust og mæta mestum skilningi, jafnvel þau duga ekki hér.Erfiðara er að beita rökum um heill og hag fárra, ekki síst þegar talað er um fanga. Vissulega er staða þeirra slæm og á kannski að vera það. Það er slæmt að vera sviptur frelsi og bara þess vegna er hægt að segja að staða fangans sé slæm, en það er ekki okkar að auka á raunir þeirra og aðstandenda með því að búa að föngum einsog við gerum. Hver og einn sem kemur úr afplánun sem betri maður, tekur virkan þátt í samfélaginu, snýst frá fyrri niðurlægingu, öðlast frið og hamingu er meira virði fyrir okkur öll en svo að við getum sæst á að aðbúnaður fanga sé með þeim hætti að úr fangelsum sé nánast engin von að komi betri einstaklingar en fóru inn. Ef í útreikningana sem ráða frestun úrlausna ár eftir ár hefur gleymst að setja inn sálarheill, lífsgleði og það að gera vafasaman mann góðan, er best að reikna upp á nýtt. Fangar eru nefnilega líka fólk.15. ágúst 2006
Það er ekki rétt sem Siv Friðleifsdóttir, formannsframbjóðandi í Framsóknarflokknum, segir í Morgunblaði gærdagsins að farsæll foringi sé að kveðja. Halldór Ásgrímsson var foringi, en ómögulegt er að taka undir með Siv og segja Halldór hafa verið farsælan foringja. Kannski var hann það á einhverjum tíma, en vegna þess hvernig hann spilaði síðustu mánuðina og árin er ómögulegt að taka undir með Siv og segja að farsæll foringi sé að kveðja. Það er bara ekki rétt og það er alls ekki rétt af Siv að halda þessu fram með þessum hætti. Bara alls ekki.Stjórnlaus metnaður Halldórs varð til þess að Siv var sett út úr ríkisstjórn á sínum tíma. Það var gert til þess að Halldór kæmist í stjórnarráðið. Þá var sagt að það yrði Framsóknarflokknum mikil lyftistöng, það myndi lyfta flokknum upp úr ládeyðu og til sóknar og sigra. Það gekk heldur betur ekki eftir. Snemma í forsætisráðherratíð Halldórs tók að gæta óþreyju innan flokksins. Árangurinn sem stefnt var að lét ekki bara á sér standa, hann kom aldrei. Flokknum hélt áfram að blæða út og honum blæðir enn. Þess vegna er nánast galið að tala um Halldór sem farsælan foringja. Kannski sagði Siv þetta til að styggja engan á síðustu dögum fyrir flokksþingið. Kannski verður hennar metnaður til þess að hún kýs að tala með þeim hætti sem styggir fæsta.Framsóknarflokkurinn var um langan aldur langtum stærri flokkur en hann er nú. Hann hafði um og yfir tuttugu prósenta kjörfylgi og hafði mikið að segja í landsmálunum. Þrátt fyrir smánarlega útreið í kosningum og endurteknar vondar mælingar í skoðanakönnunum hefur flokknum tekist að viðhalda völdum, eða hvað? Situr hann kannski víða í skjóli Sjálfstæðisflokksins og getur ekki beitt sér af alvöru sökum þess hversu fáa fulltrúa hann á og hversu veikt hann stendur? Sennilega er það svo.Halldór Ásgrímsson leiddi flokkinn frá moldinni á mölina, eða ætlaði það allavega, en fylgi flokksins í þéttbýli er ekki merkilegt, með einstaka undantekningum. Staðan er augljós, Halldóri tókst ekki að vera nema skamma stund í draumastarfinu, starfi sem hann hafði fórnað svo miklu fyrir, meðal annars Siv Friðleifsdóttur, og Halldóri tókst ekki einu sinni að enda formennsku í Framsókn með glæsibrag. Hann hrökklaðist frá landsstjórninni og flokksstjórninni. Þannig er það og þannig hljóðar það, hvað sem Siv eða aðrir segja.Halldóri Ásgrímssyni hlýtur að vera mikið í mun að eftriskriftin verði sem best, en til að það takist verður hún að vera sönn. Það er ekki hægt að falsa söguna. Halldórs er fyrst og fremst minnst fyrir tröllslegan vilja í virkjunarmálum, vilja til innrásar í Írak, að vera leiðitamur fylgisveinn Davíðs Oddssonar, einkavinavæðingu ríkisbanka og að hafa tapað um helmingi af fylgi eigin flokks. Þetta er eftirskriftin núna. Hún kann að breytast, enda eflaust margt sem Halldór gerði á aldarþriðjungi til heilla. Það man það enginn núna nema kannski Halldór. Foringi Framsóknar kveður, en það er ofmælt að segja hann farsælan.14. ágúst 2006
Mestu eiturvaldar á Íslandi eru stórðiðjuverin. Það kemur ekki á óvart og kannski á engan að undra að Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði skuli eitra nánast jafnmikið og álverið í Straumsvík, margfalt stærra fyrirtæki. Ekki leynir sér að frá Járnblendiverksmiðjunni stígur svartur og ljótur reykur, reykur sem getur ekki annað en verið fjandsamlegur umhverfi og mönnum. Eina vörn talsmanns fyrirtækisins er skelfileg, tugga sem alltof oft er notuð, að eitrið yrði meira ef verksmiðjan nyti ekki raforku. Kol eru vissulega verri, en það breytir því ekki að við höfum hér til þess að gera lítið fyrirtæki sem látlaust eitrar og skemmir langt umfram önnur fyrirtæki, þegar miðað er við stærð og hag.Í samanburði má geta þess að í álverinu á Grundartanga, sem er næsti nágranni Járnblendiverksmiðjunnar, er allt annað uppi á teningnum. Eftir stækkun mun sú fabrikka senda frá sér 450 þúsund tonn af útblæstri á ári en Járnblendiverksmiðjan sendir frá sér 665 þúsund tonn á ári hverju. Þetta er alltof mikið og haldlítil rök að segja að þetta yrði enn verra færi eitrunin fram í öðru landi. Þeir sem ekki geta heft eitrunina verða að játa uppgjöfina.Blaðið hefur fjallað talsvert um umhverfismál síðustu daga og vikur og mun halda því áfram. Í Blaðinu á laugardag var fjallað um eiturverksmiðjurnar á Íslandi. Þar sagði forstjóri Járnblendiverksmiðjunnar: Landamæri hafa lítið að segja þegar kemur að útblæstri þessara lofttegunda. Stóriðja á Íslandi er mun skilvirkari og við skilum mun minna af koltvísýringi út í andrúmsloftið á hverja framleidda einingu borið saman við annars staðar í heiminum, og bætti við að útblástur gróðurhúsalofttegunda sé óhjákvæmilegur fylgifiskur þessa iðnaðar. Talsmaðurinn hélt áfram. Betri tækni þýðir minni útblástur, auk þess sem hagkvæmnin eykst. Forsenda þess að járnblendi er framleitt á Íslandi er að við verðum að vera miklu skilvirkari, með hærra tæknistig og þróaðri framleiðslu en til dæmis verksmiðja í Kína eða Rússlandi. Talsmaður Alcan í Straumsvík hreykir sér af árangri þess fyrirtækis, segir það hafa náð að draga úr eitruninni. Það er vonandi rétt, en slæmt samt. Ljóst er að okkar bíða frábær tækifæri til að draga sem mest úr eitrun stóriðjuvera, ekki er raunhæft að ætla að þau hætti eða fari til annarra landa. Sú vakning sem hefur orðið hér í umhverfismálum mun vonandi halda áfram og aukast og verða til þess að við gætum okkar betur hér eftir en hingað til. En það er fleira ógert. Í Blaðinu í dag er fjallað um annan mesta mengunarvaldinn í landinu, bílana. Útblástur gróðurhúsalofttegunda af völdum bíla og tækja hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Útblástur koltvísýrings hefur aukist. Ýmislegt hefur verið gert en það er ekki nóg, meira þarf að gera og tækifærin eru okkar.Hvað varðar útblástur frá bílum getum við ekki með sama hætti bent á aðra. Þar ráðum við almenningur nokkru og það er okkar að vanda okkur til að við getum af einhverjum sóma ekið um á bílunum okkar. Ráðamenn og talsmenn eiturfarbrikka verða að hysja upp um sig, og við líka.11. ágúst 2006
Mikil ósköp eru það fínar fréttir að Siv Friðleifsdóttir ráðherra sækist eftir formennsku í Framsóknarflokknum. Þetta er ekki sagt sem stuðningur við Siv, heldur vegna þess að Framsóknarflokksins beið alveg fáránleg staða hefði Siv ekki stigið fram og sýnt kjark, metnað og áræðni. Það hefði verið hreint ómögulegt ef Jón Sigurðsson, sem var kallaður til af fráfarandi formanni, hefði sjálfvirkt verið kjörinn formaður.Framsóknarflokkurinn hefur átt bágt og mun eflaust eiga um nokkurn tíma. Flokkurinn getur engum kennt um hvernig komið er nema sjálfum sér. Ef eitthvað getur flýtt fyrir bata Framsóknarflokksins er að á flokksþinginu verði alvöru kosningar um forystuna. Það er ekki nokkur einasti möguleiki fyrir flokksfólk að koma heim af eigin þingi öðruvísi en gera þar upp við þá forystu sem nú er að kveðja, einkum og sér í lagi við stjórnartíð Halldórs Ásgrímssonar og þess vegna hefði verið með öllu ómögulegt að Jón Sigurðsson hefði fengið kosningu átakalaust. Lífsins ómögulegt er að segja til um hvort þeirra, Siv eða Jón, er heppilegri formaður. Þau eru ólík og hafa ólíkan bakgrunn. Framsóknarflokkurinn er nánast klofinn í tvær fylkingar, jafnvel fleiri, og næsti formaður verður að koma flokknum saman. Frambjóðendurnir tilheyra hvor sinni fylkingunni. Jón sækir stuðning til Halldórs fráfarandi formanns og helsta samstarfsfólks, en Siv til þeirra sem hafa ekki verið sáttir með Halldór og hirðina hans. Þau hafa ólíkt bakland.Eftir að Guðni Ágústsson brást stuðningsmönnum sínum og hræddist Jón í formannskjöri hafa augu þeirra sem vilja uppgjör beinst að Siv. Hún hefur svarað kallinu og ljóst er að spennandi kosningar eru framundan. Hirð Halldórs hefur ekki stutt Siv til þessa og mun ekki gera að óreyndu. Þess vegna er framboð hennar gegn sitjandi formanni og hans stuðningsliði. Jón treystir hins vegar á það fólk sem mun ekki styðja Siv. Þess vegna verður uppgjör á flokksþinginu.Framsóknarmenn standa frammi fyrir sérstöku vali. Þeir hafa átt fleiri kvenráðherra en aðrir flokkar og hafa nú möguleika á að sækja enn fram í jafnrétti og gera konu að formanni flokksins.Svo er annað hvort formannsefnanna heppilegri kostur fyrir þann meginþorra þjóðarinnar sem er ekki í Framsóknarflokknum. Kannski skiptir það ekki mestu, kannski er mesta keppikefli Framsóknarflokksins og þjóðarinnar það sama, að Framsóknarflokkurinn fái hvíld frá þjóðstjórninni. Ef sú verður niðurstaðan að loknum kosningum verða komandi formannskosningarnar í Framsókn fyrst og fremst innanbúðarmál og okkur hinum óviðkomandi. Kannski er það best.10. ágúst 2006
Ómar Rag narsson hefur boðið ellefu manns, áhrifafólki, eins og hann nefnir það, í skoðunarferð að Kárahnjúkum. Hann segir í opnu boðsbréfi að gestirnir hafi það hlutverk að þjóna allri þjóðinni. Ómar býður forseta Íslands, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, iðnaðarráðherra, umhvefisráðherra, ritstjórum dagblaðanna þriggja og stjórnendum eða fréttastjórum Ríkisútvarpsins, NFS og Skjás 1.Þrátt fyrir að sá sem þetta skrifar hafi það meginmarkmið að þiggja aldrei neitt í starfi, ekki boðsferðir, ekki málsverði eða nokkuð annað ætlar hann að gera undantekningu og þiggja boð Ómars.Í bréfi Ómars segir að hann geri ráð fyrir að allir sem hann bjóði nú hafi þegið ferðir að Kárahnjúkum. Það á ekki við um alla. Ómar hefur hins vegar reynslu af skoðanarferðum. Gefum honum orðið:Ég hef sjálfur farið sem leiðsögumaður í tveimur vönduðum boðsferðum í þessum dúr þar sem í boði voru glæsilegar veitingar og viðurgjörningur allan daginn, flogið í Boeing 757 millilandaþotum austur með göngu í gegnum sérstak VIP-tollhlið á Reykjavíkurflugvelli; síðan farið í fimm rútum með sérstakri útvarpsstöð, setinn gala-kvöldverður í Valaskjálf með skemmtiatriðum og flogið til baka um kvöldið.Fræg var ferðin sem fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins fóru að Kárahnjúkum þar sem gestgjafi var Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og fyrrverandi varaformaður flokksins, og gestirnir voru Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrverandi formaður flokksins, Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður og nú ritstjóri og fjórði ferðafélaginn var Styrmir Gunnarrsson ritstjóri.Viðleitni Ómars er eftirtektarverð og það verður eftirtektarvert hverjir þiggja boð hans. Ómar lofar ekki flottheitum á við þau sem Landsvirkjun og aðrir jöfrar bjóða: Ég get ekki boðið ykkur svona þjónustu, heldur aðeins leiðsögn mína, samlokur og gosdrykki og beðið ykkur að hafa meðferðis góða skó og sæmilegan útifatnað. Undanfarin sumur hef ég farið með fólki gangandi, akandi og fljúgandi um svæðið á tveimur litlum flugvélum og gömlum jeppadruslum. Hoppað hefur verið á milli lendingarbrauta á völdum útsýnisstöðum þar sem stuttar gönguferðir hafa verið í boði. Lengd gönguferðanna hefur fólk ráðið sjálft. Á Sauðármelsflugvelli við Brúarjökul er hægt að setjast að snæðingi í gömlum húsbílsgarmi. Margt af þessu fólki hafði áður farið í hefðbundnar ferðir með endastöð á útsýnispalli Landsvirkjunar. Ég hef ráðið af viðbrögðum þess við því sem það upplifði í ferðunum með mér að þær hafi veitt því nýja og dýrmæta sýn, bæði á mannvirkin og áhrifasvæðin. Ég veit að þið eruð önnum kafið fólk og hver dagur dýrmætur. Þið gátuð þó séð af degi eða jafnvel lengri tíma til að kynna ykkur með eigin augum allvel aðra hlið málsins en að litlu leyti hina hliðina.Ekki hafa allir væntanlegir gestir Ómars þegið ferð að Kárahnjúkum til að kynna sér aðra hlið málsins. Það er í valdi Ómars að kynna því fólki það sem því er hollast að vita og þekkja. Honum er betur treystandi til þess en flestum öðrum gestgjöfum.5. ágúst 2006
Um verslunarmannahelgi er mikið álag á allt og alla. Þjóðvegirnir verða fullir af alls kyns ökumönnum og tjaldsvæðin mörg hver verða hlaðin af alls kyns fólki. Fátt segir okkur að harmur fylgi ekki mannsöfnuðum helgarinnar. Því miður gerist það á hverju ári.Mótmælendur virkjana hafa verið í gæslu lögreglunnar og í gæslu víkingasveitarinnar. Ekkert er til sparað til að hefta aðgerðir þess fólks. Það er vonandi að fjárráðum lögreglunnar sé vel skipt og hvergi vanti peninga til að gæta að umferð og öryggi fólks, hvort sem það er á ferðalagi eða á einhverri þeirra samkoma sem kallaðar eru hátíðir. Samt má ætla að engir kosti lögregluna jafnmikið og mótmælendurnir. Sennilega verður meira af lögreglu þar en víðast annars staðar á landinu. Allt til þess að mótmælendum takist ekki að valda hugsanlegu tjóni.Hætta er á að margir komi sárir frá hildarleik helgarinnar. Það er stórhættulegt að keyra um þrönga þjóðvegi og sérstaklega þegar innan um verða stórhættulegir ökumenn, þeir sem keyra alltof hratt og þeir sem keyra alltof hægt. Allir óska þess að komast heilir úr umferðinni, en til að það takist verðum við öll að taka þátt. Ef mið er tekið af þeim anda sem ræður hjá ýmsum er barasta engin von til að það takist. Þeir sem eru eftirlýstir vegna glæpaaksturs og þeir sem neita að benda á fantana eru ekki líklegir til að meta líf okkar hinna í dag, ekkert frekar en í gær. Því miður.Hinir sem mæta á skemmtanir til þess eins að meiða eða særa aðra eru ekki síður hættulegir. Nauðganir og aðrir hrottalegir glæpir hafa verið fylgifiskar villtra mannamóta. Ofurdrukkið fólk er hættulegt og þegar við bætist neysla annarra eiturefna, jafnvel dag eftir dag, er algjörlega óljóst hvert það leiðir. Alltof oft til harmleikja, harms sem seint eða ekki grær. Öllu má nafn gefa, líka samkomum helgarinnar. Sumar þeirra standa ekki undir því að vera kallaðar hátíðir. Reynslan, sem af er þessu sumri, sannar að svona er þetta hjá okkur. Írskir dagar og Færeyskir dagar voru með þeim eindæmum að óvíst er að reynt verði að halda slík mannamót aftur. Dauðadrukkin ungmenni ráfandi um vitandi hvorki í þennan heim né annan eru ekki að skemmta sér, kannski skrattanum. Þetta mun allt endurtaka sig um helgina. Það eina sem við getum vonað er að ekki verði framdir alvarlegir glæpir. Við getum vonað það, en því miður er mikil hætta á að vonir okkar rætist ekki. Áfengið slævir dómgreind og þegar margir eru samankomnir í sama ömurlega ástandinu er veruleg hætta á áföllum Það er vonandi að víkingasveitin og óbreyttir lögreglumenn komi í veg fyrir frjálsa för fólks við Kárahnjúka um þessa helgi einsog síðustu daga, hvað sem það kostar.Förum varlega og góða helgi.4. ágúst 2006
Það er ekki sól og yndi framundan hjá Framsóknarfólki. Aðeins tvær vikur eru til flokksþings þar sem ný forysta verður valin. Enn sem komið er hafa þrír gefið kost á sér til formanns og þar af er aðeins eitt framboðið alvöruframboð, hin eru vitavonlaus. Innan Framsóknarflokksins eru samt raddir sem gera ekki ráð fyrir að Jón Sigurðsson eigi greiða leið í stól formanns. Siv Friðleifsdóttir hefur ekkert viljað gefa upp hvað hún hyggst fyrir, en kunnugir segja hana ekki skorta metnað og ef hún láti ekki verða að framboði nú, geri hún það ekki síðar. Þetta sé hennar síðasti séns.Kunnugir gera ráð fyrir framboði Sivjar til formanns og gangi það eftir sé fjarri því víst að Jóni Sigurðssyni veitist eins létt að komast til æðstu metorða innan flokksins eins og hingað til hefur verið talið. Þó Siv sæki ekki stuðning í sama bás og Halldór Ásgrímsson hefur gert og Jón Sigurðsson mun gera, er vitað að hún hefur víðtækan stuðning meðal flokksmanna og fáir stjórnmálamenn hafa verið duglegri við að byggja upp sitt bakland og Siv. Hún fer víða, talar við marga og hefur þess vegna náð að treysta sig mikið í sessi. Þetta segja samherjar jafnt sem andstæðingar innan flokksins. Ef Siv býður sig fram til formanns verða spennandi formannskosningar.Barátta Jónínu Bjartmarz og Guðna Ágústssonar um varaformanninn kann að verða hörð. Fleiri gera ráð fyrir sigri Guðna. Hann hefur fylgi víða í flokknum en kunnugir segja Jónínu helst vera sterkari innan þingflokksins og þess fólks sem næst þeim hópi starfar. Meðal almennra flokksmanna er staða Guðna talin mun sterkari. Það vinnur á móti Guðna að hafa ekki þorað að fara í formannsslag. Þar sýndi hann á sér veika hlið sem getur skemmt fyrir honum í varaformannskjörinu. Sjálfur hótar Guðni og segir að ósigur muni kalla á sundrung í flokknum.Önnur embætti eru ekki mikilsvirði. Framsóknarmenn hafa lengið tjaldað embætti ritara sem það skipti einhverju máli, en auðvitað gerir það það ekki. Þess vegna verða átökin í mesta lagi um tvö veigamikil embætti, embætti formanns og varaformanns.Félagar í Framsóknarflokknum skilja að það er mikilsvert fyrir stöðu flokksins í komandi framtíð að þeim takist að velja sér forsytu með sóma, bæði að barist verði af sóma og að sómi verði af nýju forystunni. Halldór Ásgrímsson hefur hrökklast frá landsstjórninni og nú flokksstjtjórninni. Það eru ekki glæsileg lok á löngum ferli. Fráfarandi formaður verður að þola gagnrýna umræðu um stöðu flokksins, ákvarðanir og gjörðir síðustu ára. Ef flokksþingið gerir það ekki er sú hætta framundan að flokkurinn hjakki í sama djúpa farinu. Það er ekki glæst framtíð.2. ágúst 2006
Vissulega er er vont þegar menn berja hver annan og vissulega er það vont þegar rúður eru brotnar og aðrar eigur okkar eru skemmdar af fólki í ölvímu eða vímu annarra fíkniefna. Það er böl hversu illa við látum þegar við höldum okkur vera að skemmta okkur. Hitt er annað að það er engin ástæða til að gera meira úr vandanum en efni standa til. Engin ástæða.Þeir sem hafa ráðið sig, eða hafa verið kjörnir, til að gæta að velferð okkar hinna verða að gæta hófs í því sem þeir segja og því sem þeir gera. Ástæðulaust er að tala sem vandinn sé meiri en hann er, og ástæðulaust er að halda því fram að breytingar hafi orðið til hins verra. Um það er deilt og um það sýnist sitt hverjum. Þess vegna er krafa okkar að þeir sem ábyrgðina bera geri það með reisn, yfirvegun og hófsemi.Alla tíð hefur það verið svo þegar drukkið fólk kemur saman í stórum hópum þá er hætta á að illa fari. Þá skiptir minnstu hvort það er á mannamótum í nafni hátíða eða hvort það er skipulagslaust í miðborg Reykjavíkur. Þannig hefur þetta verið og þannig verður það. Eina sem unnt er að gera, er að reyna að lágmarka skaðann, ofbeldið og hrottann.Þrátt fyrir að borið hafi á ýkjum í umræðunni virðist sem ákveðin firring sé meðal fólks. Bílum og hjólum er ekið á áður óþekktum hraða, máttlitlir smáglæpamenn ógna fólki með bareflum eða öðrum vopnum og láta sem ekkert sé sjálfsagðra en að ryðjast inn á fólk og krefjast peninga, ofbeldisfullir menn leggja leið sína þar sem fólk er samankomið og berja mann og annan. Fæst af þesu er nýtt, því miður. Þetta er þekkt, helst að nú hafi bæst við glæpaakstur vélhjólafólks. Annað hefur fylgt okkur.Krafan sem er hægt að gera til þeirra sem bera ábyrgðina er að almenningur geti farið um í sæmilegri vissu um að verða ekki ógnað af samborgurunum, hvort sem fantar bera hnúajárn eða kraftmikil ökutæki. Það er hlutverk hins opinbera að tryggja frið borgaranna. Þrátt fyrir að margt sé að bætir það ekki stöðuna ef lögregla eða ráðamenn tala um að verr sé fyrir okkur komið en það er í raun. Ýkjurnar skemma.Í langan tíma hefur miðborg Reykjavíkur verið sem yfirgefinn vígvöllur að morgni laugardaga og sunnudaga. Það er ekkert nýtt að yfir götum og gangstéttum sé glersalli, rænulítið eða jafnvel rænulaust fólk á bekkjum eða götum, hópur fólks á stórtækum vinnuvélum að keppast við að koma öllu í betra horf áður en íbúarnir vakna og sorgin og eymdin blasir við öllum sem sjá vilja. Þannig hefur þetta verið og þannig er þetta. Kannski er mesta furða hversu margir komast heilir heim eftir slíka óvissuferð sem það er að fara í mannsöfnuðinn. Þrátt fyrir hversu bagalega er fyrir okkur komið verðum við að forðast að ýkja frásagnir af ólifnaðnum og finna leiðir til að bæta lífið. Staðreyndirnar eru nægar og ýkjur eru þarflausar.31. júlí 2006
Oft geta fáir komið óorði á marga. Á þá leið eru viðbrögð vélhjólaökumanna vegna glæpaaksturs í þeirra hópi. Við sem bæði sjáum og er ógnað af þessum sama glæpaakstri getum ekki samþykkt að aðeins fáir vélhjólaökumenn stundi glæpaakstur. Við sjáum til svo margra, bæði í Reykjavík og eins á þjóðvegunum. Það eru ekki bara fáir ökumenn sem ógna okkur hinum, þeir eru margir. Ómögulegt er að vita hversu fjölmennur hópur glæpaökumanna þetta er eða hversu hátt hlutfall vélhjólaökumanna haga sér með þessum hætti, en þeir eru margir, alltof margir.Ekki dugar lengur að tala sem örfáir fremji glæpi með glæfraakstri, aki á hundrað og fimmtíu til tvö hundruð kílómetra hraða, og jafnvel enn hraðar. Lögregla leitar nú einhverra fanta og þar fyrir utan þekkjum við þetta öll. Hver kannast ekki við að vélhjólum sé ekið á milli bíla á tveggja akreina vegum, hver kannat ekki við að þegar beðið er á rauðu ljósi komi vélhjól á milli bíla og það stöðvað framan við stöðvunarlínuna og þegar græna ljósið gefi ökumaðurinn allt í botn, rétt einsog hann sé á ráspól í kappakstri og hverfi öðrum nánast sjónum á örfáum sekúndum? Hver kannast ekki við að hafa séð vélhjóli ekið framúr á þjóðvegunum á svo miklum hraða að lyginni er líkast?Hörmuleg slys vélhjólamanna virðast virka þveröfugt, meðan sorgin er sem mest virðast einhverjir hafa það að markmiði að brjóta lögin eins mikið og framast er kostur, sjálfum sér, og það sem meiru skiptir, öllum öðrum til stórkostlegrar hættu. Þetta einfaldlega gengur ekki.Til eru menn sem eiga auðvelt með að selja sjálfum sér óhæfuna: Það er vissulega leiðinlegt að lesa um þessa vitleysinga sem eru að stinga lögguna af og keyra eins og brjálæðingar, segir viðmælandi Blaðsins í blaðinu í dag. Sá vill ekki koma fram undir nafni, engum er alsvarnað. Þessi maður hreykir sér af því að hafa ekið á þrjú hundruð kílónmetra hraða og á 240 með farþega. Það var hún sem vildi keyra svona hratt, segir hann um kærustuna sem var með honum á hjólinu í glæpaakstrinum. En fyrir okkur sem ekki skiljum, hvers vegna menn láta svona: Hjólin eru gerð fyrir þennan hraða. Það var og.Þessi viðhorf eru stórkostleg og lögreglu verður að takast að koma föntunum af hjólunum. Okkar hinna vegna.Ungir ökumenn hafa lengi verið þeir sem mestu tjóni hafa valdið. Nú bætast vélhjólamenn í þennan varasama hóp. Það er mikilsvert að breyting verði á, ekki er treystandi á að hún komi frá glæpamönnunum sjálfum, upphaf hennar verður að koma frá okkur sem viljum fara um með friði og virðingu fyrir öðru fólki. Takmarkið verður að vera að ná glæpamönnunum af hjólunum áður en skaðinn verður meiri.