Eitthvað það aulalegasta sem gert hefur verið lengi er samkomulag Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra og Kristjáns Loftssonar hvalafangara. Það er svo fjarri öllu lagi að samkomulag þeirra félaga hafi eitthvað með sjálfsákvörðunarrétt íslensku þjóðarinnar að gera, asnastrik þeirra hafa ekkert með okkur hin að gera. Það er reyndar með hreinum ólíkindum að félagar Einars í ríkisstjórn Íslands hafi lagt blessun sína yfir þessa lifandis vitleysu.Eftir að þeir félagarnir ákváðu vitleysuna hefur hver þvælan rekið aðra. Þeir félagar gleymdu að fá úttekt á matvinnslustöðinni í Hvalfirði og enn er óvíst hvort afurðir af þeim sjö hvölum sem þeir veiddu geti farið til manneldis. Svo er hitt að það skiptir kannski engu máli, engir kaupendur hafa fundist að kjötinu og ekki er nokkur möguleiki að við Íslendingar étum kjötið þeirra Kristjáns og Einars, og varla þeir sjálfir. Augljós eftirsjá greip þá félaga þegar þeir höfðu skotið sjö af þeim níu hvölum sem þeir ætluðu að fanga. Fyrirslátturinn fór langt með að toppa aðra vitleysu í málinu, ástæðan var sögð sú að dimmt væri í nóvember og veður válynd. Hver vissi það ekki? Vissu Kristján og Einar ekki að hvalveiðar voru ekki stundaðar á þessum árstíma áður en þeir hlupu á sig og ruku af stað? Kom þeim á óvart að dimmt er stóran hluta sólarhringsins í nóvember? Eða var ástæðan fyrir því að veiðum var hætt sú að nóg er að eiga verðlausar afurðir af sjö stórhvelum og ástæðulaust var að bæta meiru við þær verðlausu afurðir?Mikið má vera ef asnaskapurinn hefur ekki fælt marga Íslendinga frá því að vilja að við tökum upp hvalveiðar á ný. Trúlegast er helsti ávinningur þeirra félaga sá að hafa fælt fólk frá þeirra eigin málstað og þeir hafa trúlegast unnið til þess að ekki verður minnsti vilji meðal Íslendinga til að byrja þar sem frá var horfið fyrir tuttugu árum. Með þessum einstöku veiðum hefur þjóðin orðið fyrir skaða, álit okkar út á við hefur beðið hnekki, við erum ekki eins marktæk í umræðu um umhverfismál eins og helst yrði á kosið og Íslendingar þurfa að gjalda kjánaskaparins hér og þar í heiminum.Ef sjávarútvegsráðherra hefði viljað taka alvöru ákvörðun um hvalveiðar þá væri staðan önnur. Þá hefði þurft að kynna veiðarnar með fyrirvara, athuga hverjir hefðu viljað veiða, hverjir gætu unnið afurðirnar til manneldis og hver hefði viljað borða kjötið. Ekkert af þessu var gert. Við höfum orðið að athlægi og Íslendingar verða að gjalda vitleysunnar hér og þar. Við höfum ekki með nokkrum hætti sýnt heimsbyggðinni að við virðum okkar eigin sjálfsákvörðunarrétt, alls ekki. Auk álitshnekkis þarf að kosta til hundruðum milljóna til að reyna hvað hægt er að gera til að draga úr afleiðingum vitleysunnar og sennilega kemur það í hlut Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra eða annarra kerfiskarla að gera allt sem þeir geta til að fá Japana til að víkja af leið og kaupa af okkur kjötið. Það yrði til að kóróna þvæluna að þjóðin kosti hundruðum milljóna til að draga úr afleiðingum hvalavitleysunnar og að íslenska ríkið þyrfti að standa í hvalkjötssölu. Hver var tilgangurinn og sáu þeir sem ráða ekki vitleysuna fyrir?
Athugasemdir
Hárrétt hjá þér Sigurjón! Mér finnst líka gleymast í þessari umræðu kosningabarátta Íslendinga til sætis í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Eitthvað segir mér að þessi ákvörðun muni hafi einhver áhrif á þeim bænum.
Sindri Kristjánsson, 13.11.2006 kl. 15:10
Hárrétt hjá þér Sigurjón! Mér finnst líka gleymast í þessari umræðu kosningabarátta Íslendinga til sætis í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Eitthvað segir mér að þessi ákvörðun muni hafi einhver áhrif á þeim bænum.
Sindri Kristjánsson, 13.11.2006 kl. 15:10
þetta er besta grein sem ég hef séð hingað til þarsem tekið er á þessu hvalamáli
halkatla, 13.11.2006 kl. 18:52