Lögregluforinginn Arnar Jensson skrifar grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann stráir efasemdum um heiðarleika Blaðsins. Tilefnið er fréttaúttekt Blaðsins um sértækar aðferðir lögreglunnar. Arnar er þess fullviss að fréttaúttektin hafi verið unnin til þess eins að draga úr gildi hans sem vitnis í Baugsmálinu. Rök lögregluforingjans eru tær og klár, ritstjóri Blaðsins er bróðir manns sem hefur haldið utanum fjölmiðlafyrirtæki Baugs. Frekari sannanir virðist lögregluforinginn ekki þurfa, sest niður og fullyrðir á prenti að þannig sé þetta. Blaðið hafi verið notað af Baugi til að rýra trúverðugleika Arnars. Sé það rétt hjá Arnari að Blaðið hafi með einhverjum hætti opnað dyr efasemda, þá er það jafn ljóst að Arnar gekk inn um dyrnar, óboðinn, með grein sinni sem reyndar gerir það helst að kalla á spurningar og svör. Svörin hefur hann en spurningarnar hver sem les.Arnar á að minnsta kosti tvo félaga. Hann notast við þá nafnlausa í grein sinni og báðir eru þeir vissir um annarlegan tilgang Blaðsins. Annar þeirra er blaðamaður og hann sagði lögregluforingjanum að það væri augljóst að fréttaskrif Blaðsins, sem náttúrlega eru Baugi fullkomlega óviðkomandi, væru til þess gerð að varpa rýrð á Arnar. Sá blaðamaður sem þannig talar miðar væntanlega út frá eigin siðferðismati og þess vegna er knýjandi að vita hver hann er og hvar hann starfar, til þess að lesendur geti varað sig á honum. Blaðamaður sem lætur stjórnast af fólki og skrifar fréttir í þeim tilgangi sem Arnar og vinur hans halda er vondur blaðamaður og hann ber að varast. Þess vegna er nauðsyn að fréttist hver hann er.Allar tilgátur Arnars Jenssonar eru meira en sérstakar. Það eitt er svo sem í góðu lagi. Hitt er alvarlegra að ætla má að það siðferðisþrek sem hann ætlar öðru fólki sé sótt í hans eigin viðmið. Að hann látist stjórnast. Fyrir tilviljun heyrði ég rithöfundinn Hallgrím Helgason svara spurningu um hvaða mál séu verstu mál núverandi ríkisstjórnar. Hallgrímur hóf upptalninguna á þessum málum: Baugsmálið, Íraksmálið... Má vera að rithöfundurinn hafi rétt fyrir sér að Baugsmálið, sem var alls ekki helsta málið í fréttaúttekt Blaðsins, hafi allan tímann verið pólitískt og Arnar og aðrir í lögreglunni hafi verið þær tuskur sem þeir ætla öðrum að vera. Davíð Oddsson sagði eitt sinn að ef Baugsmálið væri pólitískt myndu dómstólar bara henda því, sem þeir og gerðu.Skrif lögregluforingjans og þær kröfur sem hann gerir til sönnunarfærslu varpa kannski ljósi á smánarlega útreið mála hans fyrir dómstólum, svo sem einsog Málverkafölsunarmálsins og Baugsmálsins. Brýnt er að Arnar og aðrir í hans liði hafi í huga hversu ógurlegt vald þeim er falið og þess er krafist að þeir fari vel með valdið og vonandi er Arnar oftast kröfuharðari við sjálfan sig en hann var í Morgunblaðsgreininni. Hvernig sem Arnar lætur skal hann aldrei kæfa umræðu um vinnubrögð lögreglu. Til þess eru fjölmiðlar of sterkir og sjálfstæðir, þrátt fyrir hið eitraða peð, hinn veikgerða blaðamann sem er vinur lögregluforingjans.
Athugasemdir
Er það ekki rétt hjá mér Sigurjón, en ég skildi Arnar Jensson þannig að blaðamaðurinn sem hann vísaði í væri blaðamaður á Blaðinu? Mér hefur sýnst sem þú forðist að ræða það?
Annars er það synd með Arnar Jensson. Hann kemur vel fyrir og er oftast sannfærandi í umræðu um lögreglumál en svo er einsog það slái úti fyrir honum þegar mikið liggur við. Þannig var það með gagnrýni hans á Ingibjörgu Sólrúnu þar sem hann skammaði fjölmiðlafólk Kastljóssins fyrir að fara illa með rökfærslur og svo í sama orði skildi ekki, eða snéri útúr rökfærslum Ingibjargar í Baugsmálinu. Rök hennar um 'andrúmsloft' voru sögulegs eðlis og svipuð þeim sem eru notuð í USA í málefnum rasista sem skapa ákveðið andrúmsloft þetta skildi Arnar ekki.
Ég á bágt með að trúa því að Skúli Helgason hafi haft í hótunum við Blaðið en reiði vinstri manna gagnvart Blaðinu beinast væntanlega að framkomu Andrésar Magnússonar sem skrifaði nafnlausan róg og níð um Samfylkingarfólk, dag eftir dag í Blaðinu í föstum dálkum, en það reyndar breyttist töluvert þegar þú tókst við og þú átt virðingu skilið fyrir það.
Ljótusta nafnlausa níðið var um Ólínu Þorvarðar fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar þegar allt stefndi í að meirihlutinn á Ísafirði væri fallinn og nafnlaust níð (væntanlega eftir Andrés M.) birtist í Blaðinu um hana (og ekki eftir hafandi). Eitthvað það ljótast sem ég hef séð í íslenskri blaðamennsku nokkru sinni og hún var ekki einu sinni í framboði (en slúðrað um að hún yrði bæjarstjóri)
Skapaði þetta Blaðinu virðingu fyrir vestan?
Andrés Magnússon hefur rangtúlkað skoðanakannanir skipulega frá upphafi Blaðsins, (í samkór með Mogga og x-D) í þeim tilgangi að koma höggi á Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu. Hann hóf árásirnar þegar Samfylkingin var yfir kjörfylgi en þá átti I.S. að vera ómöguleg því fylgi hafði minnkað miðað við fylgið í kringum formannskjörið! (sem var algjörlega einstakt fylgi). Hann horfir framhjá því að Ingibjörg var í forsætisráðherraefni flokksins þegar fylgið rauk upp! Verri er þó rógurinn um hana, t.d. tókst honum að saka hana um að svíkja nær öll framboðsefni flokksins fyrir borgarstjórakosningarnar á einhvern hátt. Sóðaskrif hans eiga ekkert skylt við blaðamennsku.
Níðskrif Andrésar undir nafnleysi og endurreisn Staksteina og yfirtaka Heimdallar á samsvarandi dálki í Fréttablaðinu eru engar tilviljanir. Þrír dálkar. Sama röddin. Tveir á einu skoðanasíðu blaðanna. Markvisst í samkór með Sjálfstæðisflokknum. Finnst þér skrýtið að einhverjir séu reiðir?
Við bætist að Kolbrún Bergþórs hefur skrifað slúðurgreinar um sama stjórnmálaflokk sem væru ekki sæmandi smástelpu. Í ótal greinum hennar gætirðu ekki fundið ein einustu rök, þó þú leitaðir með rökfræðingi. en fjölmargar ósmekklegar árásir. Þetta er fortíð blaðs sem er að hálfu í eigu nútíma flokksblaðs Sjálfstæðisflokksin. Þessu þarftu að mæta.
Meðhöndlun Fréttablaðsins á upplýsingum, könnunum og öðru, var yfirleitt til fyrirmyndar þegar þú varst þar við stjórn, en þú hlýtur jafnframt að þurfa að mæta ljótri fortíð Blaðsins í þeim efnum.
Þorvaldur Logason (IP-tala skráð) 16.11.2006 kl. 23:23