Sigríður Björk og Skúlagötustrákarnir

Sat fyrirlestur sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi sýslumaður á Ísafirði og núverandi aðstoðarríkislögreglsutjóri, hélt um lögreglu hér og þar í Evrópu. Ég sat dolfallinn og undraðist þekkingu og yfirsýn sýslumannsins. Ég hafði ekki áður heyrt neinn tala um lögreglu, rannsóknir, glæpi, samstarf lögreglu við einstaklinga og fjölmiðla af eins mikilli sannfæringu og Sigríður Björk gerði. Meðan ég hlustaði hugsaði ég með mér að Sigríður Björk væri kjörinn sem ríkislögreglustjóri. Sem ég er viss um að hún verður, jafnvel fyrr en seinna.Alveg er galið að tengja efasemdir mínar og annarra um vanhæfi núverandi yfirmanna ríkislögregustjóra við Baug. Það er ekki Baugi að kenna að mennirnir ná ekki árangri í starfi, en svo vill til að Baugsmenn hafa orðið meira fyrir klaufabárðunum en aðrir Íslendingar.Það er ekki aðalmálið hverjir verða fyrir atgangi þeirra Skúlagötustráka, heldur að þeir halda áfram trekk oní trekk og dæmast ítrekað hafa lítið sem ekkert til síns máls. Það er alvarleikinn og það er þess vegna sem gott er að vita að hið lánlausa embætti hefur fengið víðsýna og glögga manneskju, einsog Sigríði Björk til sín. Ég er viss um að hennar verður vart í starfi embættis ríkislögreglustjóra, og ekki er vanþörf á.

Vanmáttur embættis

Hvað á að gera við embættismennina Harald Johannessen og Jón H. B. Snorrason? Það virðist nokkuð sama hvað þeir gera blessaðir, þeim misferst flest. Saman eru þeir að verða að táknmynd hins ómögulega embættismanns, eða embættismanna.Dómsmálaráðherrann hlýtur að láta embættisfærslu þessara undirmanna til sín taka. Miðað við hversu fráleiddur málatilbúnaður þeirra og embættisfærslur hafa verið er ekki bjóðandi upp á að jafn mikilvæg mál, og þeim kumpánum hefur verið treyst fyrir, verði áfram rekin með þeim hætti sem tvímenningarnir hafa gert.Jón verður vissulega fluttur milli embætta en verður áfram með ákæruvald en Haraldur situr áfram í musteri mistakanna.Ríkisstjórnin ætlar að ræða málefni Náttúrugripasafnsins, en ætli ríkisstjórnin ætli ekki að ræða vanmátt ríkislögreglustjóraembættisins, er það ekki brýnna?

Mogginn hefur betur

Svo er að sjá að stríð Fréttablaðsins og Morgunblaðsins um fasteignaauglýsingar hafi tekið ákveðna stefnu, Mogginn er með mun meira af auglýsingum fasteignasala en Fréttablaðið. Þannig virðist blasa við eini sigur Moggans í samkeppni á dagblaðamarkaði í langan, langan tíma.Illa þekki ég stjórnendur 365 ef þeir blása ekki til aukinnar samkeppni um fasteignaauglýsingarnar og það yrði óskandi fyrir svo marga aðra ef Fréttablaðið og Morgunblaðið eyða mætti og peningum í þá keppni.Sakna frekari skýringa á ákærum í olíusvikamálinu, hver gerði hvað og hvenær, með hvaða afleiðingum, hvers vegna og hver varð ávinningurinn? Kannski verður ekki fjallað meira um þetta að sinni, það verður gert síðar.

Tölvupóstur

Bendi á að ég er með opið pósthólf, sme@visir.is og les póstinn þar nokkuð reglulega.

Ekkert nýtt

Les í Mogganum að Sigurður G. Guðjónsson hefur orðið sér úti um tölvupóst sem fór milli lögmannanna Hreins Loftssonar og Jóns Magnússonar. Þar kemur ekkert nýtt fram umfram það sem ég sagði Sigurði þegar ég vildi fara af Blaðinu í haust og eftirláta eigendunum að reka sinn fjölmiðil. Ég hafði ekki þá og hef ekki nú löngun til að starfa í þeim anda sem þeir vilja reka sinn fjölmiðil. Blaðamennskan verður að hafa forgang, hún má ekki verða ofan á vegna átaka innanhúss og ekki vegna þess að ritstjóri þurfi að berjast hennar vegna í tíma og ótíma. Það á að vera sjálfsagt að blaðamennskan njóti virðingar og vegna hennar fáist auglýsendur til að kaupa auglýsingar, ekki öfugt. Allt þetta hef ég áður sagt stjórnarformanni Árs og dags, framkvæmdastjóranum og auglýsingastjóranum.Það er eitt í Mogganum sem ég met ekki á sama hátt og það stendur þar, en það er að ég hafi átt frumkvæði að því að sækja um vinnu hjá 365 í september. Vissulega sagði ég góðum vini mínum frá hversu illa ég kynni við metnaðarleysi útgefenda Blaðsins og hversu leiðinlegt væri að vera í vörn fyrir fjömiðil þar sem helsta verkefnið var að verjast eigendum hans og sennilega væri best að þeir færu sínu fram án þess að ég væri að flækjast fyrir þeim. Ég mátti vita að það sem ég sagði færi lengra og vegna andrúmsloftsins milli mín og eigendanna fannst mér allt í lagi að alvöru útgefendur vissu huga minn.Það var fyrir þrábeiðni eigenda Blaðsins sem ég ákvað að reyna áfram í von um að starfsumhverfið breyttist. Ég losaði mig undan skyldum gagnvart 365. Ég  reyndi að finna sátt í Hádegismóum en aftur og aftur sótti á mig að mér leiddist að vinna með stjórnarformanninum, með framkvæmdastjóranum og auglýsingastjóranum. Sýn okkar á fjölmiðla er alltof ólík til að við getum átt samleið. Ég er ekki fyrstur til að vilja fara frá þeim, það gerði einnig forveri minn í starfi. Ekki veit ég hvers vegna, en svo mikið er víst að ég trúi ekki skýringum eigenda Blaðsins. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband