Les í Mogganum að Sigurður G. Guðjónsson hefur orðið sér úti um tölvupóst sem fór milli lögmannanna Hreins Loftssonar og Jóns Magnússonar. Þar kemur ekkert nýtt fram umfram það sem ég sagði Sigurði þegar ég vildi fara af Blaðinu í haust og eftirláta eigendunum að reka sinn fjölmiðil. Ég hafði ekki þá og hef ekki nú löngun til að starfa í þeim anda sem þeir vilja reka sinn fjölmiðil. Blaðamennskan verður að hafa forgang, hún má ekki verða ofan á vegna átaka innanhúss og ekki vegna þess að ritstjóri þurfi að berjast hennar vegna í tíma og ótíma. Það á að vera sjálfsagt að blaðamennskan njóti virðingar og vegna hennar fáist auglýsendur til að kaupa auglýsingar, ekki öfugt. Allt þetta hef ég áður sagt stjórnarformanni Árs og dags, framkvæmdastjóranum og auglýsingastjóranum.Það er eitt í Mogganum sem ég met ekki á sama hátt og það stendur þar, en það er að ég hafi átt frumkvæði að því að sækja um vinnu hjá 365 í september. Vissulega sagði ég góðum vini mínum frá hversu illa ég kynni við metnaðarleysi útgefenda Blaðsins og hversu leiðinlegt væri að vera í vörn fyrir fjömiðil þar sem helsta verkefnið var að verjast eigendum hans og sennilega væri best að þeir færu sínu fram án þess að ég væri að flækjast fyrir þeim. Ég mátti vita að það sem ég sagði færi lengra og vegna andrúmsloftsins milli mín og eigendanna fannst mér allt í lagi að alvöru útgefendur vissu huga minn.Það var fyrir þrábeiðni eigenda Blaðsins sem ég ákvað að reyna áfram í von um að starfsumhverfið breyttist. Ég losaði mig undan skyldum gagnvart 365. Ég reyndi að finna sátt í Hádegismóum en aftur og aftur sótti á mig að mér leiddist að vinna með stjórnarformanninum, með framkvæmdastjóranum og auglýsingastjóranum. Sýn okkar á fjölmiðla er alltof ólík til að við getum átt samleið. Ég er ekki fyrstur til að vilja fara frá þeim, það gerði einnig forveri minn í starfi. Ekki veit ég hvers vegna, en svo mikið er víst að ég trúi ekki skýringum eigenda Blaðsins.
Bloggar | 16.12.2006 | 10:39 (breytt kl. 11:21) | Slóð | Facebook