Jón Magnússon lögmaður heldur áfram umfjöllun um innflytjendamál, og að sjálfsögðu í Blaðinu. Grein Jóns er hér óstytt:
"Á forsíðu Fréttablaðsins 6. nóvember var ekkifrétt tileinkuð pólitískri rétthugsun. Yfir forsíðuna stóð Stefna Frjálslyndra í málum innflytjenda vekur ugg. Hvaða stefna er það sem vekur slíkan ugg? Sú stefna að Íslendingar hafi um það að segja hvaða útlendingar komi til landsins og fái að setjast hér að. Þessi forsíðufrétt er í anda pólitískrar rétthugsunar sem birtist meðal annars í þessari vitlausu fyrirsögn Fréttablaðsins og þeirri ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins að ekki megi segja frá því ef fólk af erlendu bergi brotið gerist sekt um afbrot eða annað jafnvel þó það séu fréttir. Stefna Frjálslyndra í innflytjendamálum vekur ekki ugg, það er rangt og vond blaðamennska að setja ekkifréttir upp með þessum hætti og andstætt hlutlægri umfjöllun um mál. Við sem höfum leyft okkur að benda á þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir ef ekki verður spyrnt við fótum erum sakaðir um fordóma. Fordómar eru hleypidómar eða ógrundaðir dómar. Dómur byggður á rökum eða staðreyndum er ekki fordómur. Málflutningur okkar er byggður á staðreyndum en ekki fordómum. Það eru þeir sem gagnrýna okkur sem gerast sekir um fordóma, að gera okkur upp skoðanir og hreinlega segja ósatt um hverjar skoðanir okkar eru. Við vörum við þeirri þróun sem hér getur orðið með áframhaldandi aðstreymi útlendinga. Við höldum því fram að það sé ekki lengur nein stjórn á þessu aðstreymi og stjórnkerfið ráði ekki við neitt. Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, benti raunar réttilega á þetta á Alþingi í vor. Enginn hefur fordæmt það fólk sem hingað hefur komið. Við höfum hins vegar krafist þess að brugðist verði við til að við getum stjórnað þróuninni og mótað það velferðarsamfélag á Íslandi sem við viljum stefna að. Samfylkingin hefur ákveðið að leggjast í stóra vörn fyrir frjálst aðstreymi útlendinga til landsins. Samfylkingunni er frjálst að hafa þá skoðun en talsmönnum hennar er hins vegar ekki heimilt að gera öðrum upp skoðanir og bregða þeim um kynþáttafordóma eða að reyna að vekja ótta fólks gagnvart útlendingum eins og talsmenn Samfylkingarinnar hafa haft á orði gagnvart málflutningi okkar. Hvergi í orðum okkar gætir fordóma. Talsmenn Samfylkingarinnar óttast hins vegar öfgalausa umræðu um vandamálið og kjósa að reyna að drepa umræðunni á dreif og gera þá tortryggilega sem þora að fjalla um þetta brýna hagsmunamál allra Íslendinga. Ég hef sett fram þá skoðun að ég vilji ekki fá hingað til lands þá sem ég kalla syni Allah og á þá við þá einstaklinga sem játa íslam og gera kröfu til að sjaría-lög gildi og hafa í öllum löndum Evrópu þar sem þeir hafa komið tekið lögin í eigin hendur hafi þeir talið það nauðsynlegt með heiðursmorðum, ofbeldi og aftökum, sbr. morð á stjórnmálaleiðtoga og kvikmyndaleikstjóra í Hollandi. Þetta eru staðreyndir en ekki fordómar. Það hefur auk heldur ekkert með virðingu eða virðingarleysi gagnvart íslam að gera. Það hefur heldur ekkert með þá játendur íslams að gera sem hér búa og hafa verið nýtir þjóðfélagsborgarar. Ég ber hins vegar ekki virðingu fyrir öfgafyllstu túlkun hvorki íslams né annarra trúarbragða. Vandinn er sá að nú hafa öfgamennirnir tekið yfir í íslamskri boðun og það er þar sem ég staldra við og geri kröfu til þess að við stöndum við ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins um mannréttindi og mannhelgi.
Fjölmenningarþjóðfélag er óskapnaður ef það felur í sér afslátt af þeim gildum mannúðar og mannréttinda sem hér ríkja. Pólitísk rétthugsun má aldrei leiða til þess að enginn þori að taka til máls um það sem máli skiptir af ótta við fordóma þeirra sem telja sig hafa einkarétt á því hvað má segja og hvað ekki. Fjölmiðlar sem útiloka eðlilega umræðu eða búa til rangar ekkifréttir í anda pólitískrar rétthugsunar eru fordómafullir og hættulegir."
Bloggar | 8.11.2006 | 10:08 (breytt kl. 17:34) | Slóð | Facebook
Sé mér til undrunar, víða í bloggheimum, að framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar hafi hótað mér þegar hann talaði um aðgerðir Samfylkingarinnar gegn Blaðinu vegna þess að ég vildi ekki þýðast hann í innri málefnum ritstjórnar.
Þetta er oftúlkun, framkvæmdastjórinn var sennilega bara í fýlu, samskonar og allir þeir Framsóknarmenn voru í þegar þeir hringdu þegar fylgið tálgaðist af þeirra flokki og fjölmiðlar greindu frá. Mér er lífsins ómögulegt að taka fljótfærnisleg orð framkvæmdastjórans sem hótun, og þá hótum um hvað, heldur einhver að hann ætli að lemja mig?
Sá siður hefur skapast að hagsmunafólk í stjórnmálum hringir í fjölmiðla og skammast jafnvel þegar eitthvað bjátar á, til dæmis þegar kjósendum fækkar. Það er bara allt í lagi og kannski átti ég ekkert að vera að segja frá þessu símtali. Fannst það bara skondið og var í svo lifandi góðu skapi þegar ég skrifaði þetta að mér var bara skemmt.
Eiríkur Bergman Einarsson skrifar forvitnilega grein í Blaðið í dag. Þar segir:
"Þeir eru af sama meiði en heita mismunandi nöfnum í ólíkum löndum. Í Danmörku er það Pia Kærsgaard sem fer fyrir Danska þjóðarflokknum, í Noregi fór Carl I Hagen fyrir Framfaraflokknum svokallaða áður en hin svipfríða Siv Jensen tók við keflinu. Í Frakklandi var það Þjóðarframvarðahreyfing Le Pen, í Hollandi hinn myrti Pim Fortuyn, í Austurríki fór Jörg Haider fyrir Frelsisflokknum. Í Belgíu kenna þeir sig við flæmska blokk og í Bretlandi er Sjálfstæðisflokkur Stóra-Bretlands að störfum. Á Íslandi er það Fjálslyndi flokkurinn með Magnús Þór Hafsteinsson fremstan í flokki. Ísland fyrir Íslendinga?Það var á tíunda áratug nýliðinnar aldar sem þjóðernisöfgaflokkar fóru á nýjan leik að ná fótfestu í stjórnmálalífi víða í Evrópu, eftir að hafa tekið sér stöðu gegn innflytjendum. Þjóðernishugmyndir hafa löngum fallið í frjóan jarðveg víða í Evrópu og hafa jafnframt fundið sér farveg í stjórnmálalífi víða í álfunni, þótt misjafnt geti verið í tíma og rúmi hvernig og hvar um lönd farvegur kynþáttahyggjunnar liggur. Einhverra hluta vegna hefur slíkur stjórnmálaflokkur ekki komið fram á sjónarsviðið á Íslandi, fyrr en nú að Frjálslyndi flokkurinn virðist ætla að helga sér þetta svið stjórnmálanna. Hér er auðsjáanlega um markvissa stefnubreytingu að ræða. Í síðustu viku ritaði Jón Magnússon, lögmaður og vonarpeningur flokksins, grein hér í blaðið þar sem hann boðaði að Ísland ætti að vera fyrir Íslendinga. Síðan hefur Magnús Þór Hafsteinsson haldið úti sama málflutningi í svo til öllum fjölmiðlum. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem álíka þjóðernishugmyndir koma fram í stjórnmálaumræðu hér á landi. Fyrir tæpum tuttugu árum var hér starfandi félagsskapurinn Norrænn kynstofn sem barðist gegn því að Íslendingar myndu blandast fólki af erlendum uppruna. Félag íslenskra þjóðernissinna sem stofnað var á Suðurlandi skömmu fyrir aldamótin var svo næst í röðinni til að halda uppi merkjum kynþáttahyggjunnar hér á landi. Félagið var aldrei fjölmennt og lognaðist út af eftir að einn forsprakki þess var dæmdur fyrir niðrandi ummæli um fólk af afrískum uppruna sem hann viðhafði í forsíðuviðtali við DV í febrúar 2001 undir heitinu Hvíta Ísland. Félag framfarasinna, undir forystu Hjartar J. Guðmundssonar, tók þá við málinu og hélt til skamms tíma úti álíka málflutningi á vefsíðunni www.framfarir.net. Nú hefur Frjálslyndi flokkurinn (sem þá er orðið andheiti) semsé tekið við keflinu. Breytir flokkakerfinuEftir að kvótamálið datt út úr stjórnmálaumræðunni hér á landi hefur Frjálslyndi flokkurinn verið í nokkurri tilvistarkreppu og virðist ætla að finna sér tilverugrundvöll með andstöðu við innflytjendur. Með því móti færir flokkurinn sig inn í þekkt mengi stjórnmálaviðhorfa í Evrópu, sem byggir á hugmyndum um sérstöðu þjóðarinnar. Viðhorfið gengur út á að innstreymi fólks af erlendum uppruna grafi á einhvern hátt undan þjóðinni og því verði að girða landið af, einnig í menningarlegu tilliti. Slíkir flokkar hafa átt ógnvænlegu fylgi að fagna víða um álfuna á undanförnum árum og því gæti þessi breyting á stefnu flokksins haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir flokkakerfið hér á landi. Til að mynda hlýtur útspilið að útiloka samstarf við Samfylkingu og Vinstri græna eftir næstu kosningar."