Færsluflokkur: Bloggar
Fari svo að Margrét Sverrisdóttir falli í kosningum í Frjálslynda flokknum er talið ljóst að hún rói á önnur mið. Hún og karl faðir hennar, Sverrir Hermannsson, eru sögð undir það búin og þau eiga að hafa tryggt sér rétt á nafni flokksins. Því getur farið svo að Guðjón Arnar Kristjánsson formaður og félagar hans verði að sigla til kosninga á nýju skipi, sem heiti þá annað en Frjálslyndi flokkurinn. Þess vegna kann að verða barist um fleira en æðstu embætti flokksins, mögulega verður einnig barist um nafnið.
Á sama tíma og stjórnarandstaðan talar frá sér vit og rænu og enginn hlustar, varla ræðumenn sjálfir, er annað og enn verra að gerast á Alþingi Íslendinga. Alþingi er í herkví eins ráðherra. Menntamálaráðherra á mikið undir að breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins verði að lögum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur svo oft orðið brottrek með þetta sama mál að það er óviðunandi fyrir hana að gefast enn og aftur upp. Staða hennar og sjálfsvirðing í stjórnmálum hangir á þessu máli. Það veit stjórnarandstaðan og þess vegna er verr látið en ella.
En hvað sem segja má um menntamálaráðherra er það hjóm eitt miðað við það sem segja má um Alþingi. Ráðherrann leggur ofurkapp á þetta eina mál og þar með meirihluti þingsins. En mörg tákn eru á lofti um að því fari fjarri að meirihluti þingmanna sé sammála ráðherranum um að gera breytingar á Ríkisútvarpinu. Miklu frekar er þjóðin að verða vitni að því þegar ráðherraræðið tekur yfir þingræðið. Það hefur gerst ítrekað að þingið verður afgreiðsludeild fyrir ráðherrana og það er að gerast núna. Þegar rætt er við einstaka þingmenn í stjórnarflokkunum er ljóst að þeir hafa ekki sannfæringu fyrir mikilvægi breytinganna á Ríkisútvarpinu. Formaður menntamálanefndar, sem hefur það hlutverk að bera hið umdeilda mál á borð þingsins, er til að mynda yfirlýstur stuðningsmaður þess að selja Ríkisútvarpið, að ríkið eigi ekkert með að vera í rekstri sem þessum. En þingmaðurinn gerir sér grein fyrir að hann hefur ekkert að segja, honum er skipað að haga sér í samræmi við það sem ráðherra vill hverju sinni. Sennilega er það ástæða þess að sæti þingmannsins er í mikilli hættu. Kannski eru kjósendur og þá sérstaklega stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins ekki eins hrifnir af þjónkuninni og ráðherrann.
Þingmenn hafa stundum þurft að leggjast lágt. Það getur ekki alltaf verið gott að vera í liði og mega engu breyta, ekkert segja og ekkert gera sem breytir gegn vilja ráðherranna. Síðustu ár hefur verið verulega vegið að þingræðinu og ógnarstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar á sínu liði var mikil. Enn eimir eftir af harðræðinu eins og glögglega má sjá á þjónkun stjórnarsinna við menntamálaráðherrann.
Alþingi Íslendinga hefur verið upptekið vegna einkamáls Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Þess vegna hefur ekki verið unnt að sinna öðrum málum. Stjórnarandstaðan talar frá sér vit og rænu og enginn hlustar og enginn gerir neitt með það sem sagt er. Enda er ekki ætlast til þess. Þegar búið er að ræða eitt og sama málið í hundrað klukkustundir er komið nóg. Reyndar verður að telja stjórnarandstöðunni það til tekna að hún er kannski að berjast við að halda uppi sóma Alþingis, nokkuð sem fótgönguliðar stjórnarflokkanna á Alþingi gera ekki.
Það eru áhöld um hvort hlutverkið er betra; að tala og tala í tómið eða sýna algjört tómlæti og láta niðurlægja sig, að henda frá sér öllum meiningum og skoðunum.
Lögreglan hóf mál á hendur Gunnar Erni Kristjánssyni, þáverandi forstjóra SÍF og löggiltum endurskoðanda, eftir að Lárus Halldórsson, framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs lækna, kom á fund lögreglu og játaði á sig stórfelldan fjárdrátt og að hafa blekkt stjórn sjóðsins og endurskoðanda, fyrrnefndan Gunnar Örn. Lárus var að vonum ákærður og sakfelldur, hann tók út sína refsingu og að henni lokinni var hann eðlilega frjáls maður. Hann greiddi nokkurn hluta þess sem hann hafði stolið og stóð eftir eignalaus.
Lögreglan gerði ekkert með þá fullyrðingu Lárusar að hann hefði blekkt Gunnar Örn endurskoðanda, en sjálfur er Lárus menntaður endurskoðandi.
Lögreglan hóf mál á hendur Gunnar Erni sem stóð í nærri þrjú ár. Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, var lögreglunni til ráða í upphafi málsins, en skemmst er frá því að segja að Hæstiréttur vísaði málinu frá dómi og fann alvarlega að öllum málatilbúnaði lögreglunnar.
"Örugglega hefði mátt vinna málið betur og skýrar af hálfu ákæruvaldsins," segir Árni Tómasson í viðtali við DV. "Með fullri virðingu fyrir dómurunum, þá held ég að þegar 120 til 140 milljónir eiga að vera í sjóði og þar reynast ekki vera til nema 40 milljónir sé eitthvað athugavert á ferðinni. Framkvæmdastjórinn hefur viðurkennt að hann stal þessum peningum og villti um fyrir mönnum. Eftir situr fólk sem fær ekki lífeyrinn. Er það þá ekki nógu skýrt?" segir Árni. Hæstiréttur sagði sína skoðun á yfirlýsingu Árna og starfsaðferðum lögreglunnar.
Í dómi Hæstaréttar frá 12. maí 2005 segir að mjög hafi skort á að lögreglan hafi aflað þeirra gagna sem þarf til að hægt sé að ákveða hvort sækja eigi mann til saka. Þá gerði Hæstiréttur athugasemd við að verknaðarlýsing í ákæru væri ófullkomin. Gunnari væri gefið að sök að hafa ekki gætt góðra endurskoðunarvenja með því að kanna ekki ákveðin gögn. Ekkert væri þó að finna um hvaða gögn væri að ræða, hvað þau innihéldu eða hvað skorti upp á störf Gunnars til þess að þau mættu vera fullnægjandi.
Þegar þessi niðurstaða lá fyrir, Hæstiréttur hafði vísað málinu frá og áhöld voru uppi um að brotið hefði verið á Gunnari Erni með þeim hætti að málatilbúnaðurinn hefði farið gegn mannréttindasáttmála Evrópu og gegn stjórnarskránni íslensku lét lögreglan sér ekki segjast. Gunnari Erni var hótað að ákært yrði á ný í málinu. Gunnar Örn og fjölskylda hans lifðu við það í langan tíma að yfir honum vofðu hótanir valdsins manna, að þeir kæmu aftur þrátt fyrir smánarlegar skammir Hæstaréttar. Þeir létu sér ekki segjast og löngu eftir að Lárus Halldórsson, sem stal peningunum, var frjáls maður mátti Gunnar Örn búa við að óttast nýja saksókn hvenær sem var. Árni Tómasson, sem var ráðgjafi lögreglunnar, segir nefnilega nokkuð mikið þegar hann segir: "Með fullri virðingu fyrir dómurunum, þá held ég að þegar 120 til 140 milljónir eiga að vera í sjóði og þar reynast ekki vera til nema 40 milljónir sé eitthvað athugavert á ferðinni." Þetta er hárrétt hjá Árna, en honum og lögreglunni tókst aldrei að sýna að Gunnar Örn, sá sem var ákærður, hefði brotið refsilög. Það er alvarlegt að lögreglan höfði tilefnislaust mál á hendur einstaklingi. Kannski ekki síður alvarlegt en sá glæpur sem Lárus framdi og var upphaf alls málsins.
Eftir niðurstöðu Hæstaréttar hagaði lögreglan sér einsog verstu handrukkarar, hótaði að koma aftur. Það var síðan Bogi Nilsson ríkissaksóknari sem gekk fram fyrir skjöldu og drap málið.
Fór í dag á eitt hundraðasta tindinn frá því í apríl í vor. Ætlaði upphaflega að ganga á eitt hundrað tinda á einu ári, en ákvað síðar að ljúka markmiðinu um þessa helgi. Það tókst þegar ég gekk á Vífilsfell í dag. Það var erfið ganga, mikill og mjúkur snjór svo ég sökk oft upp að mjöðmum og undir snjónum var mikil hálka, einkum á móberginu.
Náði fleiri markmiðum um helgina. Á föstudag hafði ég ekki reykt í níu ár og ekki drukkið í tíu ár. Þessir merku áfangar í mínu lífi báru upp á sama dag og fyrsta DV undir minni ritstjórn kom út.
Nú þarf ég að setja mér ný markmið á þessu ári, er búinn að ákveða tvennt sem ég ætla að gera, en mun hafa þau takmörk aðeins fyrir mig til að byrja með.
Myndirnar tók ég af mér á Vífilsfelli í dag. Vissulega hef ég farið misoft á suma tinda, Helgafell ofan Hafnarfjarðar, Trölladyngja og Vífilsfell hafa vinninginn, hef oftast farið á þessu fjöll, eða kannski fell, segist oft vera mest í fellunum.
Bloggar | 7.1.2007 | 14:53 (breytt kl. 14:54) | Slóð | Facebook
Stundum er það svo að margir hringja til að spjalla um hitt og þetta og aðrir stoppa mig á förnum vegi í sömu erindagjörðum. Óvenju margir hafa þurft að spjalla um fjölmiðla við mig síðustu daga. Sum símtölin og samtölin eru mér ofar í huga en önnur. Ágætum vini mínum var nokkuð mikið niðri fyrir vegna þess að Fréttablaðið hafði fundið út að Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, sem var í forsíðuviðtali DV, hafði áður birst á forsíðu. Vini mínum fannst Fréttablaðið, sem hann kallar reyndar aldrei annað en SDB sem útleggst ef ég man rétt stóra dreifiblaðið, hafi lagst lágt að vera núa okkur á DV því um nasir að vera með mynd á forsíðu af konu sem áður hafði verið á forsíðu. Einkum og sér í lagi að á þeim árum sem liðu milla viðtalan hafði Ragnheiður Ásta veikst alvarlega og varð að hætta að vinna og í fyrsta sinn í svo langan tíma hafði hún ekki lesið jólakveðjurnar sem eru snar þáttur í aðdraganda jóla hjá svo mörgum. Vinur minn nefndi fjölda Íslendinga sem hefðu margsinnis komið á forsíðu og ekki þótt neitt tiltökumál, jafnvel þó þeir hafi svo sem ekki verið gera neitt sérstakt, eða upplifa neitt sérstakt. Að lokum spurði vinurinn mig hvort ég hefði ekki verið hissa þegar ég las SDB á laugardag.
Nei, ég varð ekkert hissa. Það vissu allir sem starfa í Skaftahlíð 24 að þetta yrði i Fréttablaðinu. Blaðamenn Fréttablaðsins höfðu gengið um grundir allan föstudaginn og grobbast af. Annað sem mér og vini mínum fór á milli var persónulegt.
Kunningakona mín hringdi í mig um daginn vegna greinar sem Sigðurður G. Guðjónsson útgefandi skrifaði um mig í Moggann. Sigurður vill að ég verði blaðamaður ársins, en ekki ég, þetta er svo sem ekki það eina sem við Sigurður erum ekki sammála um. Kunningjakonan sagði nær að útnefna Sigurð sem útgefenda ársins, en hvers vegna?Jú, sagði hún, er ekki rétt hjá mér að á almanaksárinu 2006 hafi Sigurður verið með þrjá ef ekki fjóra ritstjóra á blaðinu sínu?
Ég sagðist ekki vita það, man bara ekki hvenær Ásgeir Sverrisson tók við af Karli Garðarssyni, en man að ég tók við snemma í júlí og Trausti Hafliða um miðjan desember. Konan stoppaði mig og sagði þetta einmitt vera það sem hún meinti, þrír eða fjórir ritstjóra á sama blaðinu á einu ári, er það ekki met, spurði hún. Ég veit það bara ekki.
Einn þekki ég sem stundum hefur allt á hornum sér. Daginn sem hann hringdi höfðu dóttir hans og tegndasonur átt í mestu erfiðleikum að komast ferða sinna með barnavagninn á einhverri gagnstétt þar sem þar lágu heilu stæðurnar af fríblöðum sem ekki voru borin í hús. Hann sagði mér líka sögu af blinfum manni sem hafi lent í erfiðleikum vegna blaðapakka. Hringjandi spurði hvort ekki væri rétt að hefja keppni í blaðapakkahindrunarhlaupi og í annarri keppnisgrein geti íbúar sambýlishúsa keppt í að opna útidyrnar þrátt fyrir að fyrir innan liggi búnkar af fríblöðum.
Læt eina sögu enn fylgja, en þannig er að margir þurfa að ræða Fréttablaðið og allir eiga það sameiginlegt að þykja blaðinu hraka. Af gömlum vana tek ég alltaf til varna fyrir Fréttablaðið. Einn sagðist þess fullviss að Pravda hefði aldrei verið eins opinbert þóknunarblað við stjórnvöld og Fréttablaðið er. Láttu nú ekki svona, sagði ég og bað manninn að vera ekki með neinar ýkjur. Ýkjur, át hann upp eftir mér, og þvertók fyrir að hann væri að ýkja og nefndi nokkur dæmi.
Ég verð að viðurkenna að ég sá Prövdu tvisvar eða þrisvar en gat ekkert lesið svo ég gat ekki þrætt við manninn, þekkti ekki samanburðinn, held nú að það sama hafi átti við um hann.
Bloggar | 7.1.2007 | 10:29 (breytt kl. 10:46) | Slóð | Facebook
Samheldinn og ákveðinn hópur fólks hefur setið við þá fáu virku daga sem liðnir eru á árinu 2007 með það markmið að endurgera DV, stíga fyrsta skrefið til að hefja elsta dagblað landsins til vegs og virðingar á ný. Á þremur vinnudögum hefur hópnum tekist að gera blað, sem er fyrsta skrefið á langri vegferð, og vonandi hefur tekist að sýna lesendum hvert DV stefnir.
Fyrir rúmum fimmtán árum var DV sennilega mest spennandi fréttafjölmiðillinn á Íslandi. Þá var enn til staðar gagnrýnt hugarfar, andi efasemda um gerðir landsfeðranna og annarra kjörinna fulltrúa þjóðarinnar, þá hafði DV það að markmiði að veita aðhald, að vera stöðugt á vaktinni. Umfram allt var DV alþýðlegt blað sem sinnti neytendamálum og öðrum upplýsingum til hins almenna lesanda.
Síðar breyttist DV og varð mjög pólitískt sem leiddi útgáfu þess í gjaldþrot. Við tók misheppnuð tilraun, DV var gert að götublaði með helstu göllum þess konar fjölmiðla. Þjóðin hafnaði DV og blaðinu hefur verið haldið gangandi síðan, það kemur aðeins út einu sinni í viku. Svo verður í einhvern tíma enn, en ekki lengi. Innan fárra vikna verður DV aftur að dagblaði, en hvers konar dagblaði?
Við sem höfum ráðið okkur til starfa á DV vitum hvað við viljum. Við kappkostum að færa hugann aftur að þeim tíma þegar DV var og hét og ímyndum okkur hvernig það blað væri í dag hefði það fengið að vera í friði, hefði það fengið að þroskast með eðlilegum hætti. Þar ætlum við að byrja. Við tókum ekki þátt í niðurlægingu síðustu ára og viljum ekki fara í þá djúpu dali.
Dagblöðin á Íslandi eru nokkuð einslit, þrjú morgunblöð sem öll virðast hafa það að leiðarljósi að gæta hófs í allri framsetningu. Dreifiblöðin tvö gjalda þess rekstrarforms sem þau lúta, það er að koma óumbeðin inn á heimili margra og þess vegna verða þau að gæta sín í allri framsetningu. Morgunblaðið hefur löngum sett sér skýrar og þröngar reglur um nafnbirtingar dæmdra manna og eins hefur komið fram að einstaka mál lúta annarri fréttastjórn en almennt gerist á því blaði. DV mun skilja sig frá hinum dagblöðunum þremur, ekki vegna þess að DV ætli að vera með dónaskap eða hroka. Frekar vegna þess að DV mun velta við steinum sem hin blöðin gera ekki og eins mun starfsfólkið gæta þess að allar fréttir lúti sömu lögmálum. Engir fá forgang og engir fá afslátt.
DV mun einnig hafa þá sérstöðu, þegar það verður aftur dagblað, að verða prentað snemma að morgni og það gefur blaðinu aukin færi á að vera ferskari en hin blöðin. Það tækifæri er einhugur um að nýta til að hafa blaðið sem ferskast og best þegar það berst lesendum.
Það þarf enginn að óttast DV, DV mun ekki skrapa botn mannlegrar eymdar, DV mun ekki ganga erinda stjórnmálasamtaka eða flokka og DV mun heldur ekki ganga erinda eigenda sinna. DV hefur skýr markmið, þar fer fremst trú og hollusta við lesendur. DV byggir tilveru sína á lesendum og hún styrkist því aðeins að DV standi í ístaðinu gegn öllu áreiti og þóknun við menn og málefni. Til þess erum við tilbúin. Í DV í dag er birt siðaskrá blaðsins og hún gefur tóninn um vinnubrögðin.
Fyrsta tölublað ársins 2007 er vísir að dagblaði.
Þá er fyrsta DV nýs árs, nýtt DV, komið út. Þetta var törn, höfðum í raun aðeins rúma tvo sólarhringa til alls, skrifa og breyta útliti. Frábær hópur fólks sem var tilbúið að vinna mikið og hratt.
Getum betur og gerum betur. Merkilegt verkefni framundan.
Ríkisendurskoðandi hefur skorað á félagsmálaráðherra að stöðvar greiðslur úr almannasjóðum til Byrgisins. Ekkert eftirlit hefur verið með ráðstöfun almannafjár í rekstri Byrgisins. Það er fjarri nógu gott og ráðherra varð við áskorun ríkisendurskoðanda. Ekki verður meira borgað til Byrgisins að óbreyttu.
Áfram er fólk í Byrginu, jafnvel fólk sem á ekki annað verustað. Hver á að taka við vanda þess fólks? Er endilega rétt að stöðva greiðslur, má ekki fylgjast með hvernig þeim er varið, rétt á meðan þar er fólk sem hefur jafnvel engin ráð, fólk sem getur ekki borið ábyrgð á hvernig komið er? Er ekki líka merkilegt að stjórnmálamenn skilji ekki eftirlitsleysi opinbera peninga, sama hvort þeir renna til Byrgisins eða einhverra annarra?
Stjórnmálaflokkarnir hafa til þessa ekki þurft að gera grein fyrir margfalt meiri peningum en runnið hafa til Byrgisins. Það leysir ekki forráðamenn Byrgisins undan ábyrgð, að benda má á annað verra.
Undirbúningur að fyrsta tölublaði DV undir minni ritstjórn hefst í dag. Á næsta ári, það er 2007, verður DV, eða réttara sagt Vísir sem er undanfari DV, 97 ára. Þannig styttist í aldarafmælið. Það er von okkar sem vinnum á DV að áður en að þeim merkum tímamótum kemur verði DV búið að öðlast fyrri reisn.
Verið er að ráða inn nýja blaðamenn og aðra starfsmenn þar sem innan ekki langs tíma verður DV aftur að dagblaði og mun þá keppa af afli við dreifiblöðin, Moggann og Viðskiptablaðið sem þá verður væntanlega orðið að dagblaði, en það blað mun eiga að koma út fimm daga vikunnar, frá þriðjudegi til laugardags og mun helgarblaðið verða nokkuð frábrugðið blöðum virka daga.
Það eru sérstaklega spennandi tímar framundan og ljóst að enginn er banginn þrátt fyrir tröllslega dreifingatilburði tveggja blaða. Hér á DV ríkir trú og sjálfstraust á að vel takist til að færa DV til betri vegar.
Það er hverjum nauðsyn að efast og efast aftur. Kjararáð hækkaði laun æðstu Íslendinganna og lítið sem ekkert hefur verið fjallað um gjörninginn. Alþýðusambandið lagðist yfir málið og komst að þeirri niðurstöðu að um ofrausn sé að ræða. Á vef ASÍ segir þetta meðal annars:
"Það vekur hins vegar bæði furðu og einnig vissar áhyggjur, þegar rökstuðningur Kjararáðs er skoðaður, að ráðið skuli telja það eðlilegt að sérstök krónutöluhækkun fyrir þá lægstlaunuðu, sem samið var um í sumar fyrir þá lægst launuðu eigi að færast nú yfir til kjörinna fulltrúa, dómara og æðstu embættismanna sem prósentuhækkun. Alþýðusamband Íslands ætlast til þess að til framtíðar eigi Kjararáð að taka tillit til slíkra sértækra aðgerða til að hækka lægstu launin án þess að það flæði yfir alla."
Þessa nálgun hefur vantað til þessa og það sem mestu skiptir er það vantar að fjölmiðlar efist, efahyggjan er nauðsyn.