Færsluflokkur: Bloggar

Svanhildur er frábær

Frábær dagskrá á rás 2 í gærkvöld, aðfangadagskvöld. Þar valdi Svanhildru Jakobsdóttir jólalög flutt af Íslendingum. Hún kynnti einnig lögin og henni tókst mjög vel að hafa falleg lög, fallega flutt og sem juku á jólaskapið. Þægileg rödd Svanhildar gerði gott betra. Takk fyrir mig, Svanhildur.

Lagaval Svanhildar var nokkuð betra og skemmtilegra en það litla sem ég hef heyrt af samansafni sem er kallað 100 íslensk jólalög, eða eitthvað í þá veru. Önnur eins ruslakista lélegra dægurlaga með slæmum og geldum textum er varla til, en reyndar hef ég einungis hlustað á hluta útgáfunnar, svo kannski er það sýnishorn ekki marktækt, en ég hef fengið nóg.


Ríkistrygging stjórnmálaflokkanna

 Varnirnar sem stjórnmálaflokkarnir samþykktu um sjálfa sig eru að bresta. Alþingi samþykkti lög um stórkostlega hækkun framlaga úr almannasjóðum sér til handa og setti um leið lög sem gera nýjum framboðum sérstaklega erfitt fyrir. Fulltrúar flokkanna ætluðu að koma í veg fyrir samkeppni, eða allavega að sjá til þess að ný framboð eigi erfitt með að berjast við þá flokka sem nú eru á Alþingi. Í Fréttablaðinu í dag opnar Helgi í Góu á leið sem hagsmunagæslufólki starfandi stjórnmálaflokka yfirsást. Helgi bendir á að unnt sé að styrkja framboð langt umfram settan 300 þúsund kall, það verði gert áður en til framboðs kemur, þá eru engar hömlur settar á fjárframlög og þegar peningarnir eru tryggðir fara venjuleg samtök í framboð og þá fyrst virka ný varnarlög starfandi stjórnmálaflokka. Helga er fært að styrkja framboð eldri borgara og ekki mun koma á óvart að hann geri það, bjóði eldri borgarar fram. 

Það ber að var­ast þeg­ar stjórn­mála­flokk­arn­ir eru sam­mála um fyr­ir­greiðslu til handa sjálf­um sér úr al­manna­sjóð­um, þá býr mikið undir. Leiðir framhjá vörnunum munu finnast. Fleiri en sú sem eldri borgarar og Helgi í Góu benda á. Lýðræðið krefst þess að brogarar finni leið framhjá vörnum flokkanna fimma.


Ekki bara Baugur

 Það eru svo sannarlega fleiri en Baugsmenn sem kvarta undan störfum ríkislögreglustjóra og hans manna. Greinar Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns og Jóns Þ. Hilmarssonar löggilts endurskoðenda um mál Gunnars Arnar Kristjánssonar eru merkilegar og tilfinningin sem vaknar við lestur þeirra er merkileg, hvernig má þetta vera? Hér er gripið í grein Jóns: “Niðurstaða undirréttar og Hæstaréttar var að vonum sú að allur málatilbúnaður ríkislögreglustjóra var óásættanlegur og féll sýknudómur í undirrétti en Hæstiréttur vísaði málinu frá dómi vegna þess að rannsókn og ákæra voru með þeim hætti að málið var ótækt fyrir dóm.Þetta er bara lítið sýnishorn. Með starfsháttum sínum hefur ríkislögreglustjóri og hans menn brotið gróflega á Gunnar Erni, þeir hafa brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Í heil þrjú ár hefur Gunnar Örn Kristjánsson mátt búa við það að sæta ákærum eða sökum um að hafa gerst brotlegur í starfi sínu. Vegið var að heiðri hans og sóma og honum og hans fólki gert erfitt fyrir. Vegna þess að þeir sem fóru með ákæruvaldið, sem er afar mikið vald, voru ekki starfi sínu vaxnir. Málið hefur verið fellt niður og enginn dómur verður kveðinn upp. Þess vegna hafa sumir þeirra sem nærri rannsókninni komið stráð kornum efasemda um áægti Gunnars Arnar, smekkleysan virðist engin takmörk hafa. Það er að vonum sem spurt er hvort ekki verði að gera ráðstafanir svo borgarar þurfi ekki að óttast lögreglu sem starfar með þessum hætti. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir: “Eins og lögregla hagaði rannsókn skorti þannig mjög á að hún næði því takmarki, sem mælt er fyrir um í 67. grein laga nr. 19/1991.Báðir tveir, Kristinn og Jón Þ. færa sterk rök fyrir því að lögreglan hafi verið viss um sök Gunnars Arnar við upphaf rannsóknarinnar, hafi verið búin að gefa sér sök og hagað störfum samkvæmt þeirri vissu.Mér var bent á, hér á þessari síðu, að ekki sé rétt að tala um vanhæfni ríkislögreglustjóra, réttara sé að segja óhæfni. Það er eflaust rétt ábending.Grein Kristins birtist í Mogganum á mánudag og grein Jóns Þ. í Mogganum á þriðjudag. Það er ekki bara í Baugsmálinu sem ríkislögreglustjóri rennur á svellinu. Hann gerir það víðar og mál Gunnars Arnar er dæmu um óhæfni. Eftir situr alvarlegt mál, en það er aðförin að Gunnari Erni og eflaust hefur verið erfitt fyrir hann að hafa stöðu grunaðs manns í þrjú ár, í máli sem var aldrei dómtækt og aldrei tókst að sanna nokkra sekt. Valdið er vandmeðfarið.

Hægt og bítandi

Las Blaðið fyrst allra blaða í dag, rétt einsog alla aðra daga síðustu mánuði. Í leiðara Trausta Hafliðasonar var fullyrðing sem ég veit að er röng, en ritstjórinn segir: “Frá því Blaðið hóf göngu sína þann 6. maí árið 2005 hefur því verið vel tekið af lesendum. Lestur þess hefur hægt og bítandi aukist.” Ritstjórinn virðist ekki þekkja söguna. Frá fyrsta degi og þar til um mitt sumar var lestur Blaðsins lítill, mældist innan við þriðjung, hafði nánast ekkert breyst frá fyrsta útgáfudegi. Lesturinn var alltof lítill og á hverjum degi hentu þúsundir Íslendinga Blaðinu ólesnu. Um miðjan júlí urðu miklar breytingar, nánast nýr fölmiðill með sama nafni hóf göngu sína. Lesturinn tók kipp, aukningin mældist í tugum prósenta. Önnur eins breyting á lestri dagblaða var óþekkt. Þetta vita svo sem flestir, greinilega ekki allir.Þar sem mér gafst ekki kostur á að þakka samstarfsfólki mínu á ritstjórn Blaðsins samstarfið geri ég það hér með. Saman tókst okkur að endurreisa blað sem þjóðin hafnaði og gera úr því blað sem naut virðingar og velfarnaðar. Það sýndu tölur um lestur.

Launaður heimildarmaður

Ég á góða vini sem hafa lifað góða daga í Byrginu og sem tala vel um Guðmund Jónsson forstöðumann. Sökum þess hversu þetta fólk er mikið tegnt mér hef ég forðast að fjalla um Byrgismálið. Þar sem ég er áhugamaður um fjölmiðla leitar aftur og aftur á mig sú staðreynd að ritstjóri Kompás borgaði heimildarmanni til að koma fram í þætti til að staðfesta frétt sem var til umfjöllunnar. Fram kom að heimildarmaðurinn var fíkill, en það er svo sem ekki aðalmálið, en sú staðreynd styrkir ekki Kompás. Vonandi er dæmið frá Kompási það eina í fréttavinnslu á Íslandi, það er sú staðreynd að Kompás greiddi heimildarmanni fyrir að staðfesta frétt. Ég vona að Kompás hafi algjöra sérstöðu umfram alla aðra fréttamiðla á Íslandi. Eftir að hafa starfað á fjölmiðlum í meira en tuttugu ár hef ég aldrei heyrt fyrr að fjölmiðill greiði fyrir staðfestingum á fréttum. Þetta er allt annað mál en þegar greitt er fyrir fréttaskot, þá kemur sá sem bendir á fréttina almennt ekki nærri vinnslu fréttarinnar.Mér þykir þetta reyndar svo alvarlegt að ég vona sannarlega að ég hafi misskilið ritstjóra Kompás.

Sigríður Björk og Skúlagötustrákarnir

Sat fyrirlestur sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi sýslumaður á Ísafirði og núverandi aðstoðarríkislögreglsutjóri, hélt um lögreglu hér og þar í Evrópu. Ég sat dolfallinn og undraðist þekkingu og yfirsýn sýslumannsins. Ég hafði ekki áður heyrt neinn tala um lögreglu, rannsóknir, glæpi, samstarf lögreglu við einstaklinga og fjölmiðla af eins mikilli sannfæringu og Sigríður Björk gerði. Meðan ég hlustaði hugsaði ég með mér að Sigríður Björk væri kjörinn sem ríkislögreglustjóri. Sem ég er viss um að hún verður, jafnvel fyrr en seinna.Alveg er galið að tengja efasemdir mínar og annarra um vanhæfi núverandi yfirmanna ríkislögregustjóra við Baug. Það er ekki Baugi að kenna að mennirnir ná ekki árangri í starfi, en svo vill til að Baugsmenn hafa orðið meira fyrir klaufabárðunum en aðrir Íslendingar.Það er ekki aðalmálið hverjir verða fyrir atgangi þeirra Skúlagötustráka, heldur að þeir halda áfram trekk oní trekk og dæmast ítrekað hafa lítið sem ekkert til síns máls. Það er alvarleikinn og það er þess vegna sem gott er að vita að hið lánlausa embætti hefur fengið víðsýna og glögga manneskju, einsog Sigríði Björk til sín. Ég er viss um að hennar verður vart í starfi embættis ríkislögreglustjóra, og ekki er vanþörf á.

Vanmáttur embættis

Hvað á að gera við embættismennina Harald Johannessen og Jón H. B. Snorrason? Það virðist nokkuð sama hvað þeir gera blessaðir, þeim misferst flest. Saman eru þeir að verða að táknmynd hins ómögulega embættismanns, eða embættismanna.Dómsmálaráðherrann hlýtur að láta embættisfærslu þessara undirmanna til sín taka. Miðað við hversu fráleiddur málatilbúnaður þeirra og embættisfærslur hafa verið er ekki bjóðandi upp á að jafn mikilvæg mál, og þeim kumpánum hefur verið treyst fyrir, verði áfram rekin með þeim hætti sem tvímenningarnir hafa gert.Jón verður vissulega fluttur milli embætta en verður áfram með ákæruvald en Haraldur situr áfram í musteri mistakanna.Ríkisstjórnin ætlar að ræða málefni Náttúrugripasafnsins, en ætli ríkisstjórnin ætli ekki að ræða vanmátt ríkislögreglustjóraembættisins, er það ekki brýnna?

Mogginn hefur betur

Svo er að sjá að stríð Fréttablaðsins og Morgunblaðsins um fasteignaauglýsingar hafi tekið ákveðna stefnu, Mogginn er með mun meira af auglýsingum fasteignasala en Fréttablaðið. Þannig virðist blasa við eini sigur Moggans í samkeppni á dagblaðamarkaði í langan, langan tíma.Illa þekki ég stjórnendur 365 ef þeir blása ekki til aukinnar samkeppni um fasteignaauglýsingarnar og það yrði óskandi fyrir svo marga aðra ef Fréttablaðið og Morgunblaðið eyða mætti og peningum í þá keppni.Sakna frekari skýringa á ákærum í olíusvikamálinu, hver gerði hvað og hvenær, með hvaða afleiðingum, hvers vegna og hver varð ávinningurinn? Kannski verður ekki fjallað meira um þetta að sinni, það verður gert síðar.

Tölvupóstur

Bendi á að ég er með opið pósthólf, sme@visir.is og les póstinn þar nokkuð reglulega.

Ekkert nýtt

Les í Mogganum að Sigurður G. Guðjónsson hefur orðið sér úti um tölvupóst sem fór milli lögmannanna Hreins Loftssonar og Jóns Magnússonar. Þar kemur ekkert nýtt fram umfram það sem ég sagði Sigurði þegar ég vildi fara af Blaðinu í haust og eftirláta eigendunum að reka sinn fjölmiðil. Ég hafði ekki þá og hef ekki nú löngun til að starfa í þeim anda sem þeir vilja reka sinn fjölmiðil. Blaðamennskan verður að hafa forgang, hún má ekki verða ofan á vegna átaka innanhúss og ekki vegna þess að ritstjóri þurfi að berjast hennar vegna í tíma og ótíma. Það á að vera sjálfsagt að blaðamennskan njóti virðingar og vegna hennar fáist auglýsendur til að kaupa auglýsingar, ekki öfugt. Allt þetta hef ég áður sagt stjórnarformanni Árs og dags, framkvæmdastjóranum og auglýsingastjóranum.Það er eitt í Mogganum sem ég met ekki á sama hátt og það stendur þar, en það er að ég hafi átt frumkvæði að því að sækja um vinnu hjá 365 í september. Vissulega sagði ég góðum vini mínum frá hversu illa ég kynni við metnaðarleysi útgefenda Blaðsins og hversu leiðinlegt væri að vera í vörn fyrir fjömiðil þar sem helsta verkefnið var að verjast eigendum hans og sennilega væri best að þeir færu sínu fram án þess að ég væri að flækjast fyrir þeim. Ég mátti vita að það sem ég sagði færi lengra og vegna andrúmsloftsins milli mín og eigendanna fannst mér allt í lagi að alvöru útgefendur vissu huga minn.Það var fyrir þrábeiðni eigenda Blaðsins sem ég ákvað að reyna áfram í von um að starfsumhverfið breyttist. Ég losaði mig undan skyldum gagnvart 365. Ég  reyndi að finna sátt í Hádegismóum en aftur og aftur sótti á mig að mér leiddist að vinna með stjórnarformanninum, með framkvæmdastjóranum og auglýsingastjóranum. Sýn okkar á fjölmiðla er alltof ólík til að við getum átt samleið. Ég er ekki fyrstur til að vilja fara frá þeim, það gerði einnig forveri minn í starfi. Ekki veit ég hvers vegna, en svo mikið er víst að ég trúi ekki skýringum eigenda Blaðsins. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband