Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
Merkilegt að heyra jafnvel vana blaðamenn lesa út úr eftirfarandi að ég hafi sett út á blaðamennsku fríblaða:
"Það sem hefur skipt hvað mestu máli fyrir mig, er að ég er ekki eins sannfærður fyrir ágæti fríblaða og ég var. Þar ráða nokkrar ástæður, til að mynda dreifing blaðanna og það að þau eru prentuð í stórum upplögum og borin út í von um að sem flestir lesi. Auðvitað á þetta form rétt á sér, en mér þykir komið að þeim punkti hjá mér, að ég og fríblöð eigum ekki samleið, allavega ekki í bili. Kannski breytist það seinna, en þetta er helsta ástæða þess að ég kýs að hætta sem ritstjóri Blaðsins."
Ein helsta ástæða þess að ég vil hætta á fríblöðum er dreifingin. Hvorki Fréttablaðinu né Blaðinu hefur tekist að dreifa blöðunum með sóma. Aðrar ástæður er hægt að nefna, til að mynda pláss fyrir efni. Fríblöðin eru þröng vegna auglýsinga og þrengslin setja blöðunum mörk um umfang efnis. Svo er annað sem er mikilsvert, það er spennandi vettvangur að þurfa að lúta eðlilegum lögmálum um framboð og eftirspurn. Það hefur ekkert með blaðamennsku á fríblöðum að gera að mig langi að taka nýtt skref, nýja áskorun og gera annað en ég hef gert síðustu ár.
Ég held að þeir sem hafa lesið gagnrýni, á eigin stöf og félaga mína á ritstjórnum beggja fríblaðanna, út úr orðum mínum hafi kosið að gera svo.
Það er rétt sem fram hefur komið að ég hef sagt upp störfum sem ritstjóri Blaðsins og að ég hafi óskað eftir að láta af störfum eigi síðar en um áramótin. Ég hef ekki rætt við 365 eða Árvakur um störf á þeirra blöðum. Getgátur um það eru rangar.
Það er einnig rétt að Janus Sigurjónsson hefur sagt upp og óskað eftir að láta af störfum á sama tíma og ég. Janusi langaði í raun aldrei á Blaðið. Honum stóð margt til boða, en hann tók þá ákvörun að fylgja mér og þegar ég sagði honum að ég ætlaði að hætta voru allar forsendur fyrir veru hans á Blaðinu brostnar.
Fréttastjórunum, sem líkt og Janus, komu með mér og einungis mín vegna, hafa sagt upp störfum, en með fyrirvörum um hvernig spilast úr með ráningu nýs ritstjóra. Þau vilja hafa fyrirvara um hver tekur við og eins hvort næsti ritstjóri vilji vinna með þeim eins náið og samstarf fréttastjóra og ritstjóra þarf að vera.
Fréttir af öðrum uppsögnum eru ekki réttar.
Það sem hefur skipt hvað mestu máli fyrir mig, er að ég er ekki eins sannfærður fyrir ágæti fríblaða og ég var. Þar ráða nokkrar ástæður, til að mynda dreifing blaðanna og það að þau eru prentuð ó stórum upplögum og borin út í von um að sem flestir lesi. Auðvitað á þetta form rétt á sér, en mér þykir komið að þeim punkti hjá mér, að ég og fríblöð eigum ekki samleið., allavega ekki í bili. Kannski breytist það seinna, en þetta er helsta ástæða þess að ég kýs að hætta sem ritstjóri Blaðsins.
e.s. las á bloggsíðu Steingríms Ólafssonar um þá ákvörðun mína að hætta á Blaðinu. Það er rétt að Steingrímur hafði samband við mig í gær, og vegna loforða við núverandi vinnuveitendur afvegaleiddi ég hann, kaus að staðfesta ekki upssögnina. Það er hins vegar kolrangt það sem haft er eftir mér orðrétt á síðu Steingríms;
Ertu að hætta á Blaðinu?"
Svar Sigurjóns var eftirfarandi:
"Nei, það er lygi."
Samtal okkar var ekki svona, og ég nota ekki orðið lygi. Nenni bara að mótmæla því sem er sagt að hafi verið í beinni ræðu. Annað hirði ég ekki um.
Bloggar | 8.12.2006 | 09:27 (breytt kl. 10:09) | Slóð | Facebook
"Sme skýrir dagblaðakönnunina bloggi sínu. Styttri útgáfa hljóðar svo: Ef veðrið hefði verið betra í könnunarvikunni og ef blaðberar Moggans stæðu sig betur í vinnunni, þá hefði Blaðið fengið magnaða útkomu í könnuninni."
Þetta skrifar félagi Pétur Gunnarsson á bloggsíðu sinni, vegna pistils míns hér að neðan. Ekki kannast ég við að hafa veigið að blaðberum Moggans, ég fann að dreifikerfinu, ekki að blaðberum. Blaðberar bera ekki út blöð sem þeir ekki fá. Eftir stendur að það eru meiri möguleikar að blöð sem eru borin til lesenda séu lesin, en þau sem eru það ekki.
Kannski er ekkert merkilegt að lestur dagblaðanna hafi dregist saman milli tveggja síðustu lestrarkannanna. Minnst dróg úr lestri Blaðsins, eða um 1,7 prósent meðan nokkru meira dróg úr lestri hinna blaðanna, allt að 3,3 prósent.
Tvennt vekur athygli, að óveður var á föstudeginum í könnunarvikunni og ljóst er að Morgunblaðsmenn, sem dreifa Blaðinu, hafa ekki dreift því einsog gera mátti ráð fyrir. Lestur Blaðsins á föstudeginum mælist einkennilega lítill, miðað við lestur aðra daga. Þessi staðreynd hlýtur að vekja upp spurningar. Blaðið mætir afgangi í dreifingu, og það er vont, en þrátt fyrir það er Blaðið annað mest lesna dagblaðið á helstu markaðssvæðum þess. Hefði Blaðinu verið dreift eins á föstudeginum og hina dagana hefði Blaðið haldið sínu, meðan hin blöðin féllu í lestri.
Síðasta könnun var dagbókarkönnun og þær hafa oftast aðrar niðurstöður en símakannanir. Ef síðustu dagbókarkannannir eru bornar saman kemur fram að lestur Fréttablaðsins og Morgunblaðsins breytist lítið sem ekkert. Lestur Blaðsins hefur hins vegar tekið stökk, aukist um meira en 60 prósent á milli dagbókarkannanna. Þetta er einstakur árangur.
Þegar niðurstöður könnunarinnar eru skoðaðar sést glögglega að dreifing Blaðsins er fjarri nógu góð. Með bættri dreifingu er mögulegt að setja markið á að keppa við Fréttablaðið í lestri, en til þess þarf að auka dreifingu og sinna henni af alúð. Ætlunin er að Blaðið fari til allra kaupenda Morgunblaðsins á landsbyggðinni og til ókeypis dreifingar á sölustöðum að auki. Könnunin sýnir ótvírætt að svo er alls ekki, lesturinn á landsbyggðinni mælist ótrúlega lítill miðað við Moggann og útilokað er að Blaðið fari til allra áskrifenda Moggans. Það stenst ekki.
Fréttablaðið hefur í langan tíma getað sagst vera mest lesið, alltaf, allsstaðar. En svo er ekki lengur. Blaðið mælist á tveimur punktum meira lesið en Fréttablaðið og þeir sem skrifa Blaðið hafa þar með sýnt að það er hægt að fella vígi.
Þróun á lestri Morgunblaðsins kallar á umræðu um stöðu áskriftarblaða. Ekki er víst að það sé sjálfgefið að lestur þeirra þróist einsog lestur Moggans. Það væri uppgjöf að halda að það sé sjálfsagt. Gæði blaða, hvað í þeim stendur og hvernig það er sagt, skiptir kannski mestu. Á forsíðu Moggans í dag er aðalfyrirsögnin; Hætta markaðssetningu vara vegna hvalveiða. Þessi fyrirsögn kallar á að vera lesin oftar en einu sinni, bæði til að skilja hana og í raun um hvað hún er. Hægt hefði verið að segja; Gefast upp undan hvalveiðunum, og styðja fyrirsögnina með yfir- eða undifryrirsögn. En þetta er bara sett fram óathugað og eru svo sem bara hugrenningar mínar.