Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur sagt það mistök að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak. Það vissu svo sem allir, en hitt er merkilegra sem Jón hefur sagt, að ákvörðunin hafi verið tekin af Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni án alls samráðs, jafnvel án samráðs við aðra í ríkisstjórninni. Þessu hefur svo sem oft verið haldið fram. Ráðherrar hafa ekki staðfest gruninn en nú hefur formaður Framsóknarflokksins gengið fram fyrir skjöldu og viðurkennt misnotkun tveggja manna á íslensku þjóðinni og kjörnum fulltrúum hennar. Að þeir hafi ekki einu sinni hirt um að ræða við utanríkismálanefnd Alþingis sýnir virðingu þeirra fyrir þingræðinu. Er of gróft að segja að þeir hafi niðurlægt þingið?En fyrst Jón Sigurðsson er byrjaður að tala með þessum hætti er ekki úr vegi að leita fleiri svara hjá honum. Þess vegna er spurt: Kæri Jón, getur þú upplýst hvaða umræður voru í ríkisstjórn áður en samþykkt var að leggja fram frumvarp um ofureftirlaun þeirra Davíðs og Halldórs og nokkurra annarra? Vissulega varst þú ekki í ríkisstjórn þá, Jón, ekki frekar en þegar þeir félagar settu okkur á lista viljugra innrásarþjóða. Þú kannt að verða þér úti um svörin og hefur aðstöðu til þess. Má vera, einsog svo marga grunar, að Davíð og Halldór hafi átt fundi með forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna áður en málið var kynnt í ríkisstjórn og samið um framgang þess þar, eða var það kannski aldrei kynnt í ríkisstjórn, eða kannski aldrei rætt af öðrum ráðherrum eða við aðra ráðherra? Má vera, kæri Jón, að tveir menn hafi ekki aðeins lýst yfir stríðsstuðningi okkar allra, heldur hafi þeir líka upp á sitt eindæmi skammtað sér ríkuleg eftirlaun?Kæri Jón, það er eitt enn. Má vera að fjölmiðlafrumvörpin, þau fyrstu, hafi verið sama marki brennd? Þar hafi tveir menn, það er Davíð og Halldór, þrykkt málum áfram án þess að leita samþykkis í þingflokkum og eða í ríkisstjórn? Má það vera?En fyrst þú hefur upplýst okkur um að ekkert samráð var haft áður en stuðningi var lýst yfir við innrásina í Írak, langar marga að vita hvað þér þykir um þá samflokksmenn þína, og núna nána samstarsfmenn, sem hafa til þessa ekki viljað segja söguna einsog þú gerir nú. Kæri Jón, má vera að þér þyki það í lagi, eða kalla fyrri svör þess fólks á nánari skoðun? Þar sem þú hefur lýst því yfir að ranglega hafi verið staðið að samþykktinni á sínum tíma, væri gott að vita hvort þeir sem ekkert sögðu og ekkert gerðu beri ekki líka ábyrgð. Var ekki rétt af því fólki að segja eitthvað, mótmæla, kvarta undan framkomu þeirra félaga Davíðs og Halldórs? Er ekki ábyrgð fólgin í aðgerðaleysi ráðherra? Hvað finnst þér um það, kæri Jón?
Bloggar | 23.11.2006 | 08:11 (breytt kl. 08:12) | Slóð | Facebook
Það er ekki lítið inngrip þeirra félaga, Eggerts Magnússonar og Björgólfs Guðmundssonar
í líf okkar West Ham stuðningsmanna á Íslandi. Hvort þeir trúa eða ekki, sem halda með öðrum enskum félögum, þá hefur verið einstakt að styðja West Ham. Hreint frábært.
Nú er nauðsyn að venjast tengingu við Ísland, það breytir ýmsu. Það var fyrir fjörutíu árum, árið 1966 sem Englendingar urðu heimsmeistarar að ég og Egill bróðir ákváðum að West ham yrði okkar félag á Englandi, við vorum ungir, ég 12 ára og hann 10. Við völdum West Ham þar sem við töldum það vera vesturbæjarlið, rétt einsog KR, okkar lið á Íslandi. Elsti bróðirinn, Hafsteinn, hafði fallið fyrir Man U, einkum vegna Georges Best. Sá yngsti, Gunnar Smári, var aðeins fimm ára og elti mig og Egil. Þannig erum við þrír af fjórum albræðrunum West Ham stuðningsmenn.
Við fórum allir fjórir í fyrra. ásamt jafn mörgum afkomendum, á Upton Park og sáum West Ham tapa fyrir Man u, 2-1. Fyrsti leikurinn eftir andlát Georges Best.
Jæja, þegar við Egill urðum þess varir að West Ham var ekki vesturbæjarfélag, var ekki aftur snúið. Bobby Moore, Geoff Hurst og Martin Peters sáu um það. Síðan hefur verið einsaklega gaman að vera í West Ham, þess vegna er ábyrgð þeirra Eggerts og Björgólfs mikil. Það er ekki spennandi að hugsa til þess að félagið verði tískubóla á Íslandi og álagið af því að vera stuðningsmaður verður meira. En hvað um það; áfram West Ham United.
Bloggar | 21.11.2006 | 19:29 (breytt kl. 19:34) | Slóð | Facebook