Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
Ríkisendurskoðandi hefur skorað á félagsmálaráðherra að stöðvar greiðslur úr almannasjóðum til Byrgisins. Ekkert eftirlit hefur verið með ráðstöfun almannafjár í rekstri Byrgisins. Það er fjarri nógu gott og ráðherra varð við áskorun ríkisendurskoðanda. Ekki verður meira borgað til Byrgisins að óbreyttu.
Áfram er fólk í Byrginu, jafnvel fólk sem á ekki annað verustað. Hver á að taka við vanda þess fólks? Er endilega rétt að stöðva greiðslur, má ekki fylgjast með hvernig þeim er varið, rétt á meðan þar er fólk sem hefur jafnvel engin ráð, fólk sem getur ekki borið ábyrgð á hvernig komið er? Er ekki líka merkilegt að stjórnmálamenn skilji ekki eftirlitsleysi opinbera peninga, sama hvort þeir renna til Byrgisins eða einhverra annarra?
Stjórnmálaflokkarnir hafa til þessa ekki þurft að gera grein fyrir margfalt meiri peningum en runnið hafa til Byrgisins. Það leysir ekki forráðamenn Byrgisins undan ábyrgð, að benda má á annað verra.
Undirbúningur að fyrsta tölublaði DV undir minni ritstjórn hefst í dag. Á næsta ári, það er 2007, verður DV, eða réttara sagt Vísir sem er undanfari DV, 97 ára. Þannig styttist í aldarafmælið. Það er von okkar sem vinnum á DV að áður en að þeim merkum tímamótum kemur verði DV búið að öðlast fyrri reisn.
Verið er að ráða inn nýja blaðamenn og aðra starfsmenn þar sem innan ekki langs tíma verður DV aftur að dagblaði og mun þá keppa af afli við dreifiblöðin, Moggann og Viðskiptablaðið sem þá verður væntanlega orðið að dagblaði, en það blað mun eiga að koma út fimm daga vikunnar, frá þriðjudegi til laugardags og mun helgarblaðið verða nokkuð frábrugðið blöðum virka daga.
Það eru sérstaklega spennandi tímar framundan og ljóst að enginn er banginn þrátt fyrir tröllslega dreifingatilburði tveggja blaða. Hér á DV ríkir trú og sjálfstraust á að vel takist til að færa DV til betri vegar.
Það er hverjum nauðsyn að efast og efast aftur. Kjararáð hækkaði laun æðstu Íslendinganna og lítið sem ekkert hefur verið fjallað um gjörninginn. Alþýðusambandið lagðist yfir málið og komst að þeirri niðurstöðu að um ofrausn sé að ræða. Á vef ASÍ segir þetta meðal annars:
"Það vekur hins vegar bæði furðu og einnig vissar áhyggjur, þegar rökstuðningur Kjararáðs er skoðaður, að ráðið skuli telja það eðlilegt að sérstök krónutöluhækkun fyrir þá lægstlaunuðu, sem samið var um í sumar fyrir þá lægst launuðu eigi að færast nú yfir til kjörinna fulltrúa, dómara og æðstu embættismanna sem prósentuhækkun. Alþýðusamband Íslands ætlast til þess að til framtíðar eigi Kjararáð að taka tillit til slíkra sértækra aðgerða til að hækka lægstu launin án þess að það flæði yfir alla."
Þessa nálgun hefur vantað til þessa og það sem mestu skiptir er það vantar að fjölmiðlar efist, efahyggjan er nauðsyn.
Frábær dagskrá á rás 2 í gærkvöld, aðfangadagskvöld. Þar valdi Svanhildru Jakobsdóttir jólalög flutt af Íslendingum. Hún kynnti einnig lögin og henni tókst mjög vel að hafa falleg lög, fallega flutt og sem juku á jólaskapið. Þægileg rödd Svanhildar gerði gott betra. Takk fyrir mig, Svanhildur.
Lagaval Svanhildar var nokkuð betra og skemmtilegra en það litla sem ég hef heyrt af samansafni sem er kallað 100 íslensk jólalög, eða eitthvað í þá veru. Önnur eins ruslakista lélegra dægurlaga með slæmum og geldum textum er varla til, en reyndar hef ég einungis hlustað á hluta útgáfunnar, svo kannski er það sýnishorn ekki marktækt, en ég hef fengið nóg.
Það ber að varast þegar stjórnmálaflokkarnir eru sammála um fyrirgreiðslu til handa sjálfum sér úr almannasjóðum, þá býr mikið undir. Leiðir framhjá vörnunum munu finnast. Fleiri en sú sem eldri borgarar og Helgi í Góu benda á. Lýðræðið krefst þess að brogarar finni leið framhjá vörnum flokkanna fimma.
Bloggar | 21.12.2006 | 10:03 (breytt kl. 10:03) | Slóð | Facebook