Færsluflokkur: Bloggar
Er það vegna leiðarans, spyrja flestir sem heyra að stjórnarformaður Blaðsins rak mig á dyr í morgun. Ekki veit ég það, á bágt með að trúa að svo sé.
Hér að neðan er samantekt vegna ákvörðunar um að vísa mér á dyr og þar á eftir er leiðarinn, sem kannski rak stjórnarmennina til að reka mig á dyr.
Sigurður G. Guðjónsson hefur sagt mér að Kristinn Björnsson hafi brugðist illa við fréttum af ráðningu minni á Blaðið. Kannski hafa fleiri brugðist illa við.
Þegar ég mætti til vinnu í morgun var ég kallaður á fund þeirra Sigurðar G. Guðjónssonar stjórnarformanns, Karls Garðarssonar framkvæmdastjóra og Steins Kára auglýsingastjóra, sem eiga sæti í stjórn Árs og dags, útgáfufélags Blaðsins, og sem jafnframt eru allir eigendur ef ég veit rétt. Sigurður afhenti mér bréf og óskaði þess að ég yfirgæfi starfsstöðina strax, sem ég og gerði, fullsáttur með að störf mín í þágu þremmenninga tilheyra nú fortíðinni.
Í bréfi sem Sigurður afhenti mér kemur ýmislegt fram sem ég verð að svara, sérstaklega vegna þess að bréfið ætla þeir að senda á alla fjölmiðla. í fyrsta kafla bréfsins er vikið að þeirri ákvörðun minni að hætta á Blaðinu strax í september. Það er rétt, ég vildi út. Þeir segja mig hafa á einhverjum degi logið til um fyrirætlanir mínar, en svo var ekki. Þegar ég svaraði þeim að ég vildi hætta og væri ekki viss hvað ég færi að gera, þá var staðan sú. Ég var í miklum vafa hvað ég ætti að gera. Síðar samdi ég við 365 um að taka að mér ritstjórn DV. Þá ætlaði ég að láta reyna á samkomulag mitt og Sigurðar G. Guðjónssonar og ganga úr vistinni. Það er rétt sagt í bréfi Sigurðar. En hvers vegna ætli ég hafi viljað hætta? Íbréfinu er það kallað árásir á auglýsingastjórann, sem ég varð að beita hörðu svo hann og hans fólk hætti að hanga yfir blaðamönnum til að fylgjast með störfum þeirra svo söludeildin gæti hringt í viðmælendur blaðamanna í von um að geta selt þeim auglýsingar. Annað eins hafði ég aldrei þekkt og ég hafði talsverðarn sigur í þessari hörðu deilu, deilu um sjálfstæði ritstjórnarinnar. Eins sló í brýnu þegar auglysingastjórinn, sem einsog áður segir er bæði eigandi og stjórnarmaður, gerði athugasemd við fréttamat mitt. Svo skemmtilega vill til að gagnrýni hans var vegna fréttar sem kom 365 afskaplega illa, það er skúbbið um lokun NFS. Í bréfi Sigurðar er barátta fyrir sjálfstæði ritstjórnar kölluð árás á auglýsingastjórann. Það kemur mér ekki á óvart að enn skilji útgefendurnir ekki hvað sjálfstæði ritstjórnar og fjarlægð milli hennar og söludeildarinnar er mikils virði.
Að lokum er það ekki rétt að ég hafi átt frumkvæði að vilja fara á DV, en það er einsog svo margt annað.
Eftir að hafa fundað með stjórnarformanninum ákvað ég að brjóta allt það sem ég hafði gert gagnvart 365, Sigurður bað mig að skilja þá ekki eftir í erfiðri stöðu, talaði nánast við mig sem lífgjafa, enda höfðu orðið verulegar breytingar á blaðinu eftir innkomu mína. Þá ákvað ég að reyna áram og sjá til hvort ég gæti átt samleið með félögum.
Eftir miklar bollaleggingar ákvað ég að það væri reynt til þrautar. Þar sem segir í bréfinu að ég hafi rætt við starfsmenn á ritstjórn Blaðsins um störf á öðru blaði er ekki allskostar rétt, kannski ekki við þvíað búast. Þannig er að ég talaði ekki við neinn fyrr en eftir að nýr ritstjóri hafði verið ráðinn. Nokkrir hafa spurt hvað færi að gera og óskað eftir að fylgja mér. Ég hef lagt á það áherslu við fréttastjórana, sem eru samstarfsmenn mínir til magra ára, að láta mig eða mitt líf ekki hafa áhrif á ákvörðun sína um hvort þau kjósi að vera áfram á Blaðinu eða ekki, en bæði réðu sig þangað vegna mín, ekki vegna þremmennignanna.
Ár og dagur ætla að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að ég starfi fyrir aðra, en segja ranglega að ég hafi þegar hafið störf hjá öðrum vinnuveitenda. Svo er ekki, en svona láta menn.
Samstarfsfólki mínu sendi ég bestu kveðjur með þökk fyrir samstarfið.
Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður skrifar í Blaðíð í dag fína grein sem birtist hér í fullri legnd:
Frá því hefur verið skýrt að kjör aldraðra hafi í raun rýnað frá árinu 1988. Á sama tíma hafa kjör flestra annarra landsmanna batnað verulega. Þó liggur fyrir að raunveruleg fátækt er of mikil. Það er skrýtið hvað það gengur illa að búa til raunverulegt velferðarþjóðfélag á Íslandi. Velferðarþjóðfélag fyrir alla. Allir stjórnmálaflokkar hafa á stefnuskrá sinni að vinna að bættum hag þeirra sem lökust hafa kjörin og minnst fyrir sig að leggja. Það er þjóðarsátt um að hér sé virkt velferðarkerfi. Á sumum sviðum er svonefnd velferð þó komin út í slíkar öfgar að manni dettur einna helst í hug að meint velferðarvinna sé aðallega hönnuð fyrir þá sem starfa við hana vegna þess að þörfin er ekki fyrir hendi heldur tilbúin. Á sama tíma vantar á að þjóðfélagið sinni þeim sem mest þurfa á samfélagslegri aðstoð að halda. Af hverju eiga margir aldraðir ekki peninga fyrir mat út mánuðinn. Af hverju búa margir aldraðir við kjör þar sem mannleg reisn er frá þeim tekin. Sú kynslóð sem hefur tileinkað sér öðrum Íslendingum fremur sparsemi, nýtni og nægjusemi. Umræðan og útreikningar stjórnvalda eru komin á flækjustig í stað þess að greitt sé úr vandanum. Er það ásættanlegt í þjóðfélagi sem kallar sig velferðarþjóðfélag? Ég lít á það sem frumskyldu hvers siðaðs velferðarþjóðfélags að sjá til þess að enginn borgari líði skort. Vissulega þarf að einbeita sér að því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. En þeir sem eiga við varanlega fötlun að stríða og/eða geta ekki aflað sér tekna verða að eiga þess kost að lifa með reisn og þurfa ekki að hafa endalausar áhyggjur af frumþörfum sínum. Eitt af því sem verður að gæta að í velferðarþjóðfélagi er að fólk festist ekki í fátæktargildrum og þar getur skattkerfið gegnt mikilvægu hlutverki. Ég hef lengi haldið því fram að það brýnasta í skattamálum okkar sé að hækka skattleysismörkin verulega. Með því að hækka skattleysismörkin er komið til móts við þá tekjulægstu í þjóðfélaginu. Það þjónar bæði hagsmunum ungs fólks sem er að koma sér fyrir í þjóðfélaginu og eldri borgurum til að takmarkaðar tekjur þeirra séu ekki frá þeim teknar. Skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur miðast við að hanna skattkerfi fyrir stórfyrirtæki og þá sem eiga mestar eignir og hefur stuðlað að vaxandi ójöfnuði í þjóðfélaginu eins og Stefán Ólafsson prófessor hefur sýnt skilmerkilega fram á. Það er mikilvægt að stuðla að raunverulegri velferð og að ráðamenn okkar séu ekki í dúkkulísuleikjum, forsetinn eða sendifulltrúarnir 96, vítt og breitt um veröldina. Stjórnmálamennirnir hafa tryggt sér áhyggjulaust ævikvöld og búið til sérreglur fyrir sig. Fyrst þeir leyfa sér að gera það fyrir sjálfa sig þá er það hneyksli að þeir geri ekki það sama fyrir alla landsmenn. Slíkt er ekki bara reginhneyksli heldur spilling. Það er spilling þegar alþingismenn skammta sér betri eftirlaun og lífeyri en þeir gera öðrum kleift að fá. Það er raunar algjört siðleysi að þeir skuli búa aðra og betri velferðarumgjörð um sjálfa sig en venjulegt fólk í landinu. Þeir alþingismenn sem tóku þátt í því að skammta sjálfum sér sérkjör hafa svikið þá meginhugsjón jafnaðar og bræðralags sem þjóðarsátt ætti að vera um í þjóðfélaginu. Það verður að vera almennt öryggisnet í þjóðfélaginu um velferð allra borgara þannig að okkar minnstu bræður líði ekki skort. Sumir kalla það sósíalisma en það hefur ekkert með sósíalisma að gera. Það er mannkærleikur í samræmi við þá kristilegu lífsskoðun sem þjóðfélagið byggir á. Í því felast þau siðalögmál og viðmiðanir sem gert hafa Vesturlönd að forustulöndum mannréttinda og manngildis í veröldinni. Slík siðræn forusta er nú á undanhaldi hér á landi.
Merkilegt að heyra jafnvel vana blaðamenn lesa út úr eftirfarandi að ég hafi sett út á blaðamennsku fríblaða:
"Það sem hefur skipt hvað mestu máli fyrir mig, er að ég er ekki eins sannfærður fyrir ágæti fríblaða og ég var. Þar ráða nokkrar ástæður, til að mynda dreifing blaðanna og það að þau eru prentuð í stórum upplögum og borin út í von um að sem flestir lesi. Auðvitað á þetta form rétt á sér, en mér þykir komið að þeim punkti hjá mér, að ég og fríblöð eigum ekki samleið, allavega ekki í bili. Kannski breytist það seinna, en þetta er helsta ástæða þess að ég kýs að hætta sem ritstjóri Blaðsins."
Ein helsta ástæða þess að ég vil hætta á fríblöðum er dreifingin. Hvorki Fréttablaðinu né Blaðinu hefur tekist að dreifa blöðunum með sóma. Aðrar ástæður er hægt að nefna, til að mynda pláss fyrir efni. Fríblöðin eru þröng vegna auglýsinga og þrengslin setja blöðunum mörk um umfang efnis. Svo er annað sem er mikilsvert, það er spennandi vettvangur að þurfa að lúta eðlilegum lögmálum um framboð og eftirspurn. Það hefur ekkert með blaðamennsku á fríblöðum að gera að mig langi að taka nýtt skref, nýja áskorun og gera annað en ég hef gert síðustu ár.
Ég held að þeir sem hafa lesið gagnrýni, á eigin stöf og félaga mína á ritstjórnum beggja fríblaðanna, út úr orðum mínum hafi kosið að gera svo.
Það er rétt sem fram hefur komið að ég hef sagt upp störfum sem ritstjóri Blaðsins og að ég hafi óskað eftir að láta af störfum eigi síðar en um áramótin. Ég hef ekki rætt við 365 eða Árvakur um störf á þeirra blöðum. Getgátur um það eru rangar.
Það er einnig rétt að Janus Sigurjónsson hefur sagt upp og óskað eftir að láta af störfum á sama tíma og ég. Janusi langaði í raun aldrei á Blaðið. Honum stóð margt til boða, en hann tók þá ákvörun að fylgja mér og þegar ég sagði honum að ég ætlaði að hætta voru allar forsendur fyrir veru hans á Blaðinu brostnar.
Fréttastjórunum, sem líkt og Janus, komu með mér og einungis mín vegna, hafa sagt upp störfum, en með fyrirvörum um hvernig spilast úr með ráningu nýs ritstjóra. Þau vilja hafa fyrirvara um hver tekur við og eins hvort næsti ritstjóri vilji vinna með þeim eins náið og samstarf fréttastjóra og ritstjóra þarf að vera.
Fréttir af öðrum uppsögnum eru ekki réttar.
Það sem hefur skipt hvað mestu máli fyrir mig, er að ég er ekki eins sannfærður fyrir ágæti fríblaða og ég var. Þar ráða nokkrar ástæður, til að mynda dreifing blaðanna og það að þau eru prentuð ó stórum upplögum og borin út í von um að sem flestir lesi. Auðvitað á þetta form rétt á sér, en mér þykir komið að þeim punkti hjá mér, að ég og fríblöð eigum ekki samleið., allavega ekki í bili. Kannski breytist það seinna, en þetta er helsta ástæða þess að ég kýs að hætta sem ritstjóri Blaðsins.
e.s. las á bloggsíðu Steingríms Ólafssonar um þá ákvörðun mína að hætta á Blaðinu. Það er rétt að Steingrímur hafði samband við mig í gær, og vegna loforða við núverandi vinnuveitendur afvegaleiddi ég hann, kaus að staðfesta ekki upssögnina. Það er hins vegar kolrangt það sem haft er eftir mér orðrétt á síðu Steingríms;
Ertu að hætta á Blaðinu?"
Svar Sigurjóns var eftirfarandi:
"Nei, það er lygi."
Samtal okkar var ekki svona, og ég nota ekki orðið lygi. Nenni bara að mótmæla því sem er sagt að hafi verið í beinni ræðu. Annað hirði ég ekki um.
Bloggar | 8.12.2006 | 09:27 (breytt kl. 10:09) | Slóð | Facebook